Er arðsemi af hinu illa?

Það vekur furðu hve vinstra fólki er illa við einkarekstur í almannaþjónustu. Því er beinlínis haldið fram, að einkarekstur í grunnþjónustu sé hættulegur, því að hann þurfi að skila eðlilegum tekjuafgangi. Að mati þessa fólks hlýtur arðsemiskrafa í slíkum rekstri að skila sér í verri þjónustu.

Nýlega hneykslaðist formaður Vinstri grænna á því að enn þrjóskuðust menn við, og vilji fjölga þjónustusamningum við einkaaðila. Eða eins og hún orðar það: » … að færa æ stærri hluta af sameigninni – skóla, heilbrigðisstofnanir, veitukerfi – undir lögmál markaðarins með þjónustusamningum við einkaaðila sem eiga að græða á öllu en bera takmarkaða ábyrgð«.

Ástæða er til að staldra við slíka sleggjudóma. Gefið er í skyn að þeir, sem reka sjálfstæð fyrirtæki í opinberri þjónustu, hafi það eitt að markmiði að græða með því að kreista sem mest út úr rekstrinum á kostnað þeirra, sem njóta eiga þjónustunnar. Þessi ádeila formannsins er ekki síst sérkennileg í ljósi þess að í stjórnartíð Vinstri grænna var ekki dregið úr einkarekstri til dæmis í heilbrigðiskerfinu enda eru einkareknar einingar oft mjög hagkvæmar og skila betri árangri en þær, sem reknar eru af opinberum aðilum.

Það er athyglisvert að tala um »takmarkaða ábyrgð«þegar flestum er ljóst, að það er í raun aðstöðumunurinn milli hins opinbera og sjálfstæðra aðila sem veldur því að viðbrögð sjálfstæðra aðila við áföllum geta aldrei orðið eins víðtæk og viðbrögð hins opinbera gagnvart eigin einingum eins og staðan er í dag. Ástæðan er einmitt sú að vinstri menn streitast gegn því að veita sjálfstæðum aðilum nægan stuðning í þessu samhengi. Ef jafnt væri gefið mundi miðlægur stuðningur ná jafnt til allra þeirra sem reka grunnþjónustu hvort sem um opinbera eða sjálfstæða aðila er að ræða. Á slíkt vilja vinstri menn helst ekki minnast. Miðlægur stuðningur hins opinbera við eigin einingar ásamt fjármagni því sem veitt er í ýmsar stofnframkvæmdir er nefnilega langt umfram það sem sjálfstæðir aðilar njóta. Arðsemiskrafa hvetur rekstraraðila og starfsfólk til að finna leiðir til að sinna viðskiptavinum sem allra best með minni tilkostnaði. Aðalatriðið er að einkafyrirtæki, sem tekur að sér grunnþjónustu, verður að standa við þjónustusamninginn. Sjálfstæður rekstur hefur reynst vel hvað grunnþjónustu varðar og sýnt hefur verið fram á það að skólar reknir með ákveðinni arðsemiskröfu geta skilað betri árangri gagnvart þeim sem eiga í erfiðleikum með nám heldur en skólar sem ekki hafa arðsemiskröfu. Þetta kom m.a. fram í rannsókn, sem Harvard University gerði árið 2009.

Þá hefur ávísanakerfið, sú hugmynd að fé fylgi þörf, notið víðtæks stuðnings þar sem það hefur verið innleitt. Í Svíþjóð voru vinstri menn mjög á móti slíkri innleiðingu fyrir 20 árum en í dag nýtur þessi aðferð yfirgnæfandi fylgis fólks burtséð frá því hvort það stendur til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Þannig hafa margir vinstri menn annars staðar á Norðurlöndum áttað sig á kostum einkarekstrar á meðan vinstri menn á Íslandi halda áfram að berja höfðinu við steininn.

Arðsemiskrafa er ekki af hinu illa. Hún stuðlar að jákvæðum árangri. Ef félag skilar arði þá er líklegra að hægt sé að hækka laun starfsmanna og líklegra að félagið greiði meira til samfélagsins. Einnig er líklegra að félagið geti sótt fé til fjárfesta sem aftur mun auka getu þess til að sinna viðskiptavinum sínum enn betur. Látum ekki kreddur vinstri manna stöðva okkur í að ná enn betri árangri öllum til góðs.