Breytt nálgun – betri þjónusta

Vinstri menn á Íslandi eru leynt og ljóst á móti því að gera sjálfstæðum aðilum kleift að taka að sér rekstur grunnþjónustu. Rök þeirra eru m.a. þau að slíkt fyrirkomulag leiði til mismunandi þjónustu, þar sem hinir efnameiri fái meira en þeir efnaminni. Þrátt fyrir þau mótrök, að þannig fái allir betri þjónustu, er lítil hreyfing á málinu.

Staðan í Reykjavík er þessi: Mikill skortur er á þjónustu fyrir fatlaða, aldraða og aðra sem þurfa á aðstoð að halda. Þrátt fyrir að það sé lögbundin skylda sveitarfélagsins að veita þjónustuna eru biðlistar því miður staðreynd. Þjónustuþörf í Reykjavík vex mjög hratt. Hér búa margir sem þurfa á hjálp að halda og öldruðum á eftir að fjölga gríðarlega á næstu áratugum. Því er ljóst að við verðum að skoða vandlega hvernig við nálgumst það verkefni að veita mannsæmandi lögbundna grunnþjónustu.

Hagsmunasamtök eru gagnrýnin á viðhorf borgarinnar eins og þau birtast í reglum um stuðningsþjónustu. Gagnrýnin felst í því að reglurnar samrýmist ekki nútíma hugmyndafræði og verulega skorti á að lögð sé áhersla á sjálfstætt líf og sjálfsákvörðunarrétt fólks. Enn sé leitað í hópalausnir, stofnanahugsun sé ríkjandi, miðstýring óþarflega mikil og áhersla á jafnræði komi í veg fyrir einstaklingsmiðaða þjónustu.

Góð reynsla
Góð reynsla er af sjálfstæðum rekstri grunnþjónustu annars staðar í heiminum, til dæmis í Svíþjóð. Þar þótti mikil ástæða til þess að leyfa fólki að njóta þeirra kosta sem sjálfstæðari og sveigjanlegri þjónustueiningar hafa upp á að bjóða. Einkarekstri í grunnþjónustu hefur verið tekið fagnandi bæði í skóla- og heilbrigðiskerfinu. Fé fylgir þörf og þeir sem reka þjónustueiningar geta ekki valið sér viðskiptavini heldur velur viðskiptavinurinn þjónustuaðilann. Þannig má koma í veg fyrir að þeim efnameiri standi annað til boða en þeim efnaminni hvað grunnþjónustuna varðar. Með einmitt þessari breyttu nálgun gátu Svíar bætt afköst í heilbrigðiskerfinu og breytt nálgun í skólakerfinu skilaði betri námsárangri nemenda.

Í þessari umræðu ber mikið á því að hræðsla er við að láta „hvern sem er“ reka þjónustu. Með skýrum kröfum og skilyrðum sem rekstraraðilar, hverjir sem það eru, verða að uppfylla og fylgja má tryggja gæði. Mjög mikilvægt er að skilgreina þessar kröfur. Að sama skapi verðum við að gera okkur grein fyrir því að þessi gæði eru engan veginn tryggð þó að opinberir aðilar sjái um þjónustuna eins og nú er og svo margir vilja halda.

Eitt stærsta verkefni Reykjavíkurborgar næstu ár er að takast á við breytingar á samfélaginu. Því miður hefur meirihlutinn í Reykjavík verið áhugalaus um að taka rekstur og útfærslu grunnþjónustunnar í Reykjavík til gagngerrar skoðunar. Engu að síður eru mörg teikn um að slíkt sé óhjákvæmilegt til þess að hægt verði að veita lögbundna þjónustu í næstu framtíð og mæta fyrirsjáanlegri aukinni þörf. Í því skyni er full ástæða til að líta til velferðarsamfélaganna annars staðar á Norðurlöndum. Við eigum að nýta það sem vel hefur gefist til þess að bæta þjónustuna en láta ekki rakalausar kreddur standa í vegi fyrir eðlilegum og nauðsynlegum umbótum.