Um Áslaugu

Um Áslaugu

Trúnaðarstörf
Áslaug María, hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Hún var varaborgarfulltrúi frá 2006 og er borgarfulltrúi frá því í ágúst 2013. Hún er oddviti Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði og situr umhverfis- og skipulagsráði.

Áslaug María var kjörin í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 2007 og sat þar til 2011. Hún var formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna frá 2006 til 2011.  Hún var formaður allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins 2013 til 2016.

Af öðrum vettvangi var Áslaug formaður FSÖ, foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskólans árin 2005 til 2007, og starfaði með SKÝ-upplýsingatæknihópi árin 2005 til 2008. Hún var fulltrúi félagsmálaráðuneytisins í úrskurðarnefnd félagsþjónustu frá 2003 til 2010.

Nám og störf
Áslaug stofnaði fyrirtækið Sjá viðmótsprófanir ehf. árið 2001. Fyrirtækið var það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og hefur verið leiðandi á sviði rannsókna og úttekta á notendahegðun og aðgengismálum á vefnum. Hún hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá 2005. Á tímabilinu hefur hún haldið fjölda fyrirlestra, skrifað greinar, staðið fyrir námskeiðum og sinnt ráðgjafarverkefnum sem tengjast uppbyggingu og notkun ytri og innri vefja.

Áslaug María útskrifaðist með MSc. gráðu í vinnusálfræði frá University of Hertfordshire, Englandi, árið 1995. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og er stúdent af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum við Sund.

Á árunum 1996 til 2000 starfaði Áslaug María hjá félagsmálaráðuneytinu. Hún var deildarsérfræðingur og gerði meðal annars mat á þjónustu fyrir fatlaða í Reykjavík. Hún sá jafnframt um úrvinnslu tölulegra gagna og tók þátt í fjölda verkefna, meðal annars að koma á fót úrræðum fyrir langtíma atvinnulausa. Áslaug hefur mikinn áhuga á upplýsingatækni og vann að ýmsum sjálfstæðum verkefnum frá árinu 1996. Árið 2001 starfaði hún hjá Íslensku vefstofunni og kom þar að gerð margra frumgerða íslenskra vefja.

Fjölskylduhagir
Áslaug María Friðriksdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún á þrjú börn, tvo drengi Jóakim 14 ára, Hjálmar Friðrik, 16 ára og dótturina Jóhönnu Þórkötlu, 25 ára.

Foreldrar Áslaugar Maríu eru Friðrik Sophusson, fyrrverandi forstjóri, þingmaður og ráðherra og Helga Jóakimsdóttir, hárgreiðslumeistari og alexandertæknikennari.