Áslaugu Maríu í leiðtogasætið

Verið velkomin á vefinn minn,

Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður haldið laugardaginn 27. janúar næstkomandi.

Ég gef kost á mér í leiðtogasætið og óska eftir stuðningi þínum til að vinna þá mikilvægu baráttu sem framundan er. Nauðsynlegt er að í forystu verði leiðtogi sem hefur góða reynslu og skilji fólkið sem borgarkerfið á að þjóna.

Ég hef mikla reynslu af borgarmálunum, vil veg Sjálfstæðisflokksins sem mestan í næstu kosningum og tel að með góðri stefnu eigum við tækifæri til að ná gríðarlegum árangri. Ég hef verið borgarfulltrúi síðan 2013 og varaborgarfulltrúi frá 2006. Starfið er skemmtilegt og krefjandi. Ég er með masterspróf í Vinnusálfræði frá Háskólanum í Hertfordshire á Englandi en tók áður BA í sálfræði frá Háskóla Íslands. Frá 2001 starfaði ég hjá Sjá ehf. og var framkvæmdastjóri þess á árunum 2005 til 2013. Á þessum vef mun ég setja fram áherslumál mín greinar og skrif sem ég hef sent frá mér um nokkurra ára skeið auk annars efnis sem vonandi reynist vel þeim sem vilja kynnast mér betur.

Með baráttukveðjum,
Áslaug María Friðriksdóttir

Áherslumál

Meiri árangur – Lægri skattar og álögur á íbúa

Hægt er að ná mun meiri árangri í Reykjavík með breyttum áherslum. Á toppi hagsveiflunnar þegar aldrei meiri tekjur skila sér í borgarreksturinn er hann enn í járnum með tilheyrandi skuldasöfnun. Viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Gríðarstórar áskoranir eru framundan í rekstri þjónustunnar vegna breytinga á samsetningu íbúa og breyttum þörfum samfélagsins. Vinna þarf af alefli til að mæta þeim. Borgarbúar eiga ekki að taka á sig hækkun skatta og mikilvægt er að hefja lækkun þeirra.Forgangsatriðin eru skýr – Mannsæmandi nærþjónusta við íbúa
Barnafjölskyldum þarf að sinna, börn þurfa leikskólavist eða dagforeldra. Manneklan sem skólakerfið glímir við var löngu fyrirséð. Skólakerfið er á tímamótum og taka á því fagnandi. Fólk sem þarf að nýta félagslega aðstoð á ekki að vera boðið að taka sæti á biðlista.

Borgarlínuverkefnið – Hraðvagnakerfi í stað lestar

Borgarlínuverkefnið er sjálfsagt. Auðvitað er rétt að horfa til framtíðar og taka ákvarðanir sem leiða til betra samgöngukerfis fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Gott hraðvagnakerfi getur stórbætt almenningssamgöngur. Mikil óvissa liggur fyrir um hvernig verkefnið verður útfært endanlega og af hvaða stærðargráðu það verður. Það skilar meiri árangri að vera jákvæður í garð verkefnisins og ná á því stjórn í stað þess að tala það niður. Lestarkerfi á ekki að skoða frekar.

Bætt umferðarflæði – Fjölbreyttir samgöngumátar – Aukin loftgæði

Íbúar eiga að hafa val um ferðamáta. Þeir sem vilja eiga að geta ferðast gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum hratt og örugglega milli heimilis og vinnu, þannig má stuðla að betra umferðarflæði, líka fyrir þá sem kjósa einkabílinn. Reykjavíkurborg á að gerist þróunarborg um sjálfakandi bíla. Reykjavík á að krefjast þess að hindranir sem standa í vegi farveitna í ætt við Uber og Lyft verði afnumdar í þágu betra umferðarflæðis. Rafbílar eru komnir til að vera og gera þarf ráð fyrir þeim í borgarumhverfinu.

Bregðast þarf við húsnæðisvanda – Endurskoðun aðalskipulags

Fyrst og fremst þarf borgin að hverfa frá þeirri skortstefnu sem myndast hefur. Um leið og byggðin þéttist verður að tryggja nægilegt framboð af þjónustu í öllum hverfum ásamt fjölbreyttum valkostum í samgöngumálum. Forsendur þess aðalskipulags sem nú er í gildi eru löngu brostnar og hefja á vinnu að gerð nýs aðalskipulags. Þétting byggðarinnar hefur tekið mun meiri tíma en til stóð nema þegar hótelbyggingar eiga í hlut. Tími er kominn til að þróa hverfin betur með tilliti til þjónustu við íbúa og atvinnutækifæra. Með þeirri fjölbreyttni að leiðarljósi getum við haft jákvæð áhrif á samgönguvandamálin í borginni.

Breytt nálgun – Betri þjónusta – Burt með biðlistana

Sjálfstæðir aðilar eiga að fá tækifæri til að reka þjónustu sem vel er til þess fallin. Hlusta ber á fatlaða og aldraða sem kalla eftir sveigjanlegri þjónustu og minni miðstýringu í þjónustu. Þjónustu á að veita á forsendum notenda. Sjálfsvirðing og sjálfstæði fólks á að vera helsta markmið í allri þjónustu. Velferðarkerfið á ekki að vera það ómarkvisst að ekki sé skýr hvati til sjálfshjálpar.

Blómstrandi atvinnulíf – Menning og frumkvöðlastarf

Atvinnulíf þarf að blómstra í borginni, fjölbreyttur atvinnurekstur á að geta fundið sér stað í borginni. Áherslu á að leggja á menningu og gróskumikið frumkvöðlastarf.