Forsíða

Vertu velkomin á vefsíðuna mína,

Nú líður að leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en það verður laugardaginn 27. janúar næstkomandi.

Ég gef kost á mér í leiðtogasætið og óska eftir stuðningi þínum til að vinna þá mikilvægu baráttu sem framundan er.

Nauðsynlegt er að í forystu verði leiðtogi sem hefur góða reynslu og skilur fólkið sem borgarkerfið á að þjóna. Þessa eiginleika tel ég mig hafa. Á þessum vef hef ég því sett fram áherslumál mín, skrif og efni sem ég tel að geti aðstoðað þig við mikilvægt val.

Ég hef verið borgarfulltrúi síðan 2013 og varaborgarfulltrúi frá 2006. Starfið er skemmtilegt og krefjandi. Ég er með masterspróf í Vinnusálfræði frá Háskólanum í Hertfordshire á Englandi en tók áður BA í sálfræði frá Háskóla Íslands. Á þessum vef hef ég sett fram áherslumál mín greinar og skrif sem ég hef sent frá mér um nokkurra ára skeið auk annars efnis sem vonandi reynist vel þeim sem vilja kynnast mér betur.

Með baráttukveðjum,
Áslaug María Friðriksdóttir

Áherslumál

Meiri árangur – lægri skattar og álögur á íbúa
Hægt er að ná mun meiri árangri í Reykjavík með breyttum áherslum. Á toppi hagsveiflunnar þegar aldrei meiri tekjur skila sér í borgarreksturinn er reksturinn enn í járnum með tilheyrandi skuldasöfnun. Viðhaldi hefur ekki verið sinnt á eignum borgarinnar. Ekki hefur verið lögð áhersla á að undirbúa þær breytingar sem framundan eru vegna breytinga á samsetningu íbúa og breyttum þörfum samfélagsins. Fjölgun íbúa er lítil miðað við nágrannasveitarfélögin og þörf er á mikilli endurskoðun. Forgangsraða þarf verkefnum, nýta fjármuni mun betur. Ekki kemur til greina að borgarbúar taki á sig hækkun skatta og mikilvægt er að hefja lækkun þeirra. Þrátt fyrir stór loforð í húsnæðismálum hefur ekki verið staðið við þau eins og íbúar finna á eigin skinni.

Bregðast þarf við húsnæðisvanda – endurskoðun aðalskipulags.
Við mörgum fjölskyldum í Reykjavík blasir alvarlegur húsnæðisvandi. Fólk hefur lítið val og vegna skorts á lóðum hefur verð á húsnæði hækkað úr hófi fram. Fjölga þarf minni og ódýrari íbúðum. Fyrst og fremst þarf borgin að hverfa frá þeirri skortstefnu sem meirihlutinn í Reykjavík stundar. Skýrar og gegnsæjar reglur þarf þegar borgin útdeilir lóðum eða veitir afslátt af gjöldum. Um leið og byggðin þéttist verður að tryggja nægilegt framboð af þjónustu í öllum hverfum ásamt fjölbreyttum valkostum í samgöngumálum. Tími er kominn á að endurskoða aðalskipulag Reykjavíkur. Forsendur þess aðalskipulags sem nú er í gildi eru löngu brostnar. Það er vítavert ábyrgðarleysi hjá borgaryfirvöldum að hafa ekki sinnt þessu helsta verkefni að tryggja fólki húsnæði og stuðla með því að viðvarnandi vanda fjölskyldna í borginni. Þétting byggðarinnar hefur tekið mun meiri tíma en til stóð nema þegar hótel byggingar eiga í hlut. Þessu verður að snúa við hið snarasta. Tími er kominn til að þróa hverfin betur með tilliti til þjónustu við íbúa og atvinnutækifæra. Með þeirri fjölbreyttni að leiðarljósi getum við haft jákvæð áhrif á samgönguvandamálin í borginni.

Bætt umferðarflæði – Fjölbreyttir samgöngumátar – Aukin loftgæði
Íbúar eiga að hafa val um ferðamáta. Þeir sem vilja eiga að geta ferðast gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum hratt og örugglega milli heimilis og vinnu, þannig má stuðla að betra umferðarflæði. Borgarlínuverkefnið er enn í mikilli óvissu og stíga ber varlega til jarðar í fjárfestingum. Rafbílarnir eru komnir til að vera og ekkert bólar á uppbyggingu innviða fyrir þá í hverfum borgarinnar. Á því þarf að verða breyting. Tillaga mín um að Reykjavíkurborg gerist þróunarborg um sjálfakandi bíla var nýverið samþykkt og vonandi leiðir það verkefni af sér gagnlegar upplýsingar fyrir borgina og ákvarðanir varðandi samgöngumálin.

Breytt nálgun – Betri þjónusta – Burt með biðlistana
Mjög mikilvægt er að sjálfstæðir aðilar fái tækifæri til að reka þjónustu sem vel er til þess fallin að bjóða út eða gera þjónustusamning um. Mörg jákvæð dæmi eru um slíkt hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Nú er svo komið að hagsmunasamtök bæði fatlaðra og aldraðra kalla eftir sveigjanlegri þjónustu, minni miðstýringu og stofnanavæðing er gagnrýnd. Mjög mikilvægt er að hefjast strax handa við að skoða hvernig bæta má þjónustuna með breyttri nálgun. Fjölskyldur í Reykjavík greiða mun meira fyrir velferðarþjónustu en í öðrum sveitarfélögum en ánægja með hana er undir meðallagi. Sjálfsvirðin og sjálfstæði fólks á að vera helsta markmið í allri þjónustu. Velferðarkerfið á ekki að vera það ómarkvisst að ekki sé skýr hvati til sjálfshjálpar.

Borg menningar og frumkvöðlastarfs
Reykjavík á að vera menningarborg. Hún á ekki síður að vera borg frumkvöðla. Hingað sækir og býr kraftmikið fólk með frumlegar hugmyndir í fjölbreyttum atvinnugreinum. Með jákvæðri umgjörð má skapa frjóan jarðveg fyrir ný fyrirtæki og stuðla að auknum atvinnutækifærum fyrir ungt fólk. Mikil félagsleg og menningarleg verðmæti eru í því falin að flestir starfi við það sem fellur að áhugasviði þeirra. Að stuðla að því er fjárfesting til framtíðar.