Mistök meirihlutans

Ein allra stærstu mistök meirihlutans í Reykjavík komu fram í upphafi kjörtímabilsins þegar hann ákvað að hækka fjárhagsaðstoð til atvinnulausra þrátt fyrir að augljóst væri að slíkt myndi draga úr fjárhagslegum hvata fólks til að fara út á vinnumarkað. Með slíkri aðgerð var í raun óumflýjanlegt að þeir sem eru á lægstu launum sjái lítinn tilgang í því að vinna þegar hægt er að sleppa því og hafa sömu ráðstöfunartekjur.

Meginstefið í velferðarríki hlýtur að vera að hvetja fólk til þess að hjálpa sér sjálft og greiða svo skatta til samfélagsins til að hjálpa þeim sem geta það ekki. Í upphafi kjörtímabilsins hækkaði meirihlutinn í Reykjavík bætur þannig að munurinn á ráðstöfnarfé þess, sem nýtur bóta og hins sem vinnur fyrir lægstu launum, er nánast enginn. Þegar tekið er tillit til þess að það kostar að stunda vinnu til dæmis ferðalög á milli heimilis og vinnu hefur sá sem er á lægstu laununum minna milli handanna en sá sem er á bótum.

Þegar kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar er skoðaður kemur í ljós að hver fjölskylda í Reykjavík greiðir nú 250% meira vegna þessa vanda en árið 2008 á föstu verðlagi. Berum þessar tölur saman við tölur úr öðrum sveitarfélögum: Af tölum sem gefnar eru upp í fjárhagsáætlunum Akureyrarbæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar greiðir hver fjölskylda a.m.k. 440% meira í Reykjavík en á Akureyri og um 250% meira í Reykjavík en í Hafnarfirði.

Réttindi og skyldur eiga við venjulegar aðstæður að fylgjast að. Fjárhagsaðstoðin er í sjálfu sér réttindi en hins vegar eru skyldurnar sem henni fylgja nánast engar. Við Sjálfstæðismenn höfum ítrekað bent á nauðsyn þess að skilgreina hvaða skyldum þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar eiga að gegna. Tilgangurinn með því er að kanna hvernig hægt sé að nýta þann mannauð, sem býr í atvinnulausu fólki á fjárhagsaðstoð, mun betur en nú er gert. Í raun eru það mannréttindi að fá að taka þátt í samfélaginu og furðulegt að meirihlutinn í Reykjavík, sem gjarnan gefur sig út fyrir að vera mjög mannréttindasinnaður, taki svona ákvarðanir.