Hvar er áherslan á breytingar?

Lítið hefur verið hlustað á áhyggjur okkar Sjálfstæðismanna í borginni um að þau þjónustukerfi sem borgin rekur þurfi að fara í gegnum talsverðar breytingar til að vera tilbúin til að takast á við breytingar á aldurssamsetningu og fjölda vinnandi fólks. Ef málunum er pakkað inn þýðir þetta að fást verður við að mæta því hvernig bjóða má upp á fullnægjandi þjónustu fyrir fleiri án þess að meiri tekjur fylgi. Við höfum lagt áherslu á að innleiða tækninýjungar í velferðarþjónustuna við lítinn hljómgrunn. Við lögðum til strax í upphafi kjörtímabils að árið 2015 yrði 40 milljónum veitt í að skipuleggja slíkt breytingarferli í velferðarþjónustunni. Sú tillaga var felld. Í dag skilst mér að hálft stöðugildi (af um 7 þúsund) sinni innleiðingu velferðartækni hjá Reykjavíkurborg. Sem sagt engin áhersla lögð á þessi mál.

Ég var rétt í þessu að glugga í skýrslu sem gefin er út af Brussel skrifstofu sambands íslenskra sveitarfélaga og tekur á helstu málum ESB og EFTA árið 2017. Óháð því hvað mér finnst um rekstur þeirrar skrifstofu þá er þetta ágætis samantekt. Finn þarna samhljóm við stefnu okkar Sjálfstæðismanna í borginni hvað velferðarmálin varðar og einmitt þau mál sem of lítil áhersla er lögð á. Svo er þarna fleira áhugavert sem ég deili með ykkur svona á þessum fyrsta degi sumars 🙂

Þetta er sem sagt samantekt um framtíð Evrópu:

„Evrópuþingið rekur hugveitu til að greina framtíðaráskoranir og helstu mál á döfinni. Meðalaldur hækkar stöðugt um allan heim og ef ekkert er að gert mun þessi þróun grafa undan velferðarkerfum eins og við þekkjum þau í dag og fólk mun þurfa að vinna talsvert lengur fram eftir aldri en nú. Meðalaldur í Evrópu 2030 verður 44 ár og sá hæsti í öllum heimsálfum. Meðalaldur á heimsvísu verður 33 ár. Hækka verður framlög til heilbrigðiskerfa umtalsvert og viðskiptamódel munu gerbreytast. Innflytjendamál verða áfram ofarlega á döfinni; vegna skorts á vinnuafli vegna lágrar fæðingartíðni, vegna aukinnar misskiptingar og vopnaðra átaka og jafnvel vatnsskorts. Tækninýjungar munu umbreyta heiminum á öllum sviðum; t.d. fjölmiðlum, lýðræðismálum og heilbrigðisþjónustu, vélmenni munu vinna sífellt fleiri störf sem nú er sinnt af fólki og þorri mannkyns mun búa í þéttbýli í framtíðinni. Þá er uppgangur lýðskrumara og þjóðernissinna einnig áhyggjuefni. ESB telur brýnt að móta langtímastefnu til að bregðast við ofangreindum áskorunum.“