Kaldar kveðjur úr ráðhúsinu

Það er meiriháttar að lesa skrif borgarstjórans sem sendir þessa helgi sem aðrar út áróðurbréf sitt á borgarstarfsmenn. Nú hefur hann áttað sig á því að hann hefur fallið á vaktinni og er að reyna að grafa upp skýringar úr fyrndinni.

Bréfið hefst svona „Eitt mesta óheillaskref sem stigið hefur verið í húsnæðissögu þjóðarinnar var þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gekk milli bols og höfuðs á verkamannabústaðakerfinu um síðustu aldamót. Það hafði byggst upp á meira en hálfri öld og veitt þúsundum fjölskyldna öruggt skjól. Ekkert var sett fram í staðinn. Markaðurinn átti að leysa málið. Þetta voru alvarlegar villigötur sem samfélagið er ennþá að súpa seyðið af.“ 

Um daginn var það leiðréttingin sem var skýringin á öllum húsnæðisvandræðum meirihlutans.  Í dag er það þessi. Sannleikurinn er sá að á hans vakt hefur félagslegum íbúðum ekki fjölgað nema brot af því sem talið er eðlilegt. Eitt af hlutverkum sveitarfélags er að sjá til þess að hægt sé að aðstoða þá sem í brýnni þörf eru um húsnæði. Þá hefur Dagur B. Eggertsson staðið í vegi fyrir því að gæta þess að nægt framboð sé á lóðum sem er grundvöllur þess að húsnæðisþörfinni í borginni sé mætt.

Húsnæðismál borgarinnar eru í meiriháttar ólestri. En það er auðvitað sárt fyrir borgarstjóra og fylgifiska að horfast í augu við þau mistök sem gert hafa verið á undanförunum árum á þeirra vakt. Erfið er upplifunin nú að sá sofandaháttur er orðinn valdur að því að efnaminna fólki er haldið í fátæktargildru uppsprengds húsnæðisverðs. 

Nú slær borgarstjóri sig sjálfur til riddara fyrir að hafa samið við ASÍ um uppbyggingu leiguíbúða. Aðgangur að þeim íbúðum verður fyrir félagsmenn og líklega verður um einhvers konar lottóaðferðir að ræða. Niðurstaðan er að lítill hluti efnaminni verður heppinn á kostnað annarra og fær inni í niðurgreiddri leigu. Ekkert er gert fyrir þá sem þykja í brýnni þörf og sitja biðlista eftir félagslegu húsnæði sem er samt sá hópur sem þyrfti mesta aðstoðina. 

Kveðjan er köld til efnaminnsta fólksins í borginni,
jafnköld og súpa dagsins til hinna eldri.