Heilbrigð félagshyggja

Félagshyggjan hefur snúist upp í andhverfu sína. Stjórn Steingríms og Jóhönnu var stofnuð undir því yfirskini að standa vörð um heimilin. Hið þveröfuga hefur hins vegar átt sér stað. Ríkisstjórnin lofaði heimilunum umbótum og vernd. Hvorugt hefur skilað sér. Greiðsluvandinn er gífurlegur en fáar lausnir líta dagsins ljós. Félagshyggja sem byggð er á sandi leiðir til sundrungar og reiði og snýst upp í andhverfu sína. Við getum ekki haldið áfram á þeirri braut.

Fyrirhyggja er einskis metin.
Eldra fólkið fær ekki að njóta sparnaðar, sem er ávöxtur ævitekna þess, þegar bætur almannatrygginga eru harkalega skornar niður á móti greiðslum úr lífeyrissjóði. Þeir, sem unnið hafa fyrir sér, greitt skatta og iðgjöld í lífeyrissjóði, standa undir kostnaði við þjónustu fyrir þá sem ekkert hafa lagt til hliðar. Með þessari framkomu er unga fólkinu send þau skilaboð, að það skipti engu máli að greiða í lífeyrissjóði né sýna fyrirhyggju. Allir sjá hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér.

Grundvöllur velferðar er verðmætasköpun.
Skattastefna ríkisstjórarinnar skapar ekki verðmæti. Á meðan ríkisstjórninni hefur tekist að snúa félagshyggjunni upp í andhverfu sína hefur tækifærum verið sóað. Grundvöllur velferðar er verðmætasköpun. Hið undarlega hefur gerst á vakt núverandi ríkisstjórnar að henni hefur tekist að draga máttinn úr atvinnulífinu og efst á blaði virðist vera að kæfa grunnframleiðslu og koma í veg fyrir fjölgun starfa.

Stöndum vörð um velferðina.
Okkur ber að sjálfsögðu að hjálpa þeim sem minna mega sín og gæta þess að velferð þeirra verði ekki ógnað. Það gerum við með því að efla atvinnulífið og skapa verðmæti. Með því móti verða til fleiri störf, atvinnuleysi minnkar og ríkissjóður fær meiri tekjur til að halda úti heilbrigðu velferðarkerfi. Standa þarf vörð um velferðina með því að byggja hana á sterkum stoðum. Sjálfstæðismenn hafa ávallt gert það og munu gera það áfram. Verði andfélagshyggjan hins vegar áfram við völd er velferðarkerfið okkar í hættu.