Með bundið fyrir augu

Líklegt er að langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks skjóti rótum hér á landi ef ekki tekst að snúa vörn í sókn. Loforð um störf hafa verið svikin. Biðin eftir fleiri störfum er löng og safnast hefur upp gríðarlegur velferðarvandi. Háalvarlegt er hvernig ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefur ákveðið að breiða yfir þennan vanda.

Að horfast ekki í augu við vandann er vont
Ríkisstjórnin hefur ítrekað haldið því fram að hér sé atvinnuleysi komið niður fyrir sársaukamörk. Því er haldið fram að allt sé að komast í eðlilegt horf enda sýni tölur að atvinnulausum fækki. Þegar nánar er að gáð er þetta alrangt því að eftir að atvinnulausir hverfa af skrá Vinnumálastofnunar fara þeir yfir á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og eru jafn atvinnulausir eftir sem áður. Þetta dregur ekki úr atvinnuleysi eins og ríkisstjórnin lætur í veðri vaka.

Að leyfa honum að magnast er verra
Þrátt fyrir ábendingar frá sveitarstjórnarmönnum, forystumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, aðilum vinnumarkaðarins og fleirum hafa stjórnvöld ekki brugðist við vandanum. Félagsþjónusta sveitarfélaga er ekki vinnumiðlun samkvæmt lögum. Vinnumiðlun er verkefni ríkisins. Þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda hefur fjölgað gríðarlega. Ungu fólki langmest. Bæði þeim sem hafa ekki lengur rétt til bóta og eins ungu fólki sem aldrei hefur átt rétt á þeim því það finnur ekki starf að loknu námi eða hefur aldrei fengið tækifæri til að reyna sig á vinnumarkaði. Ríkissstjórnin heldur áfram feluleiknum og bendir á að tölur Vinnumálastofnunar sýni og sanni að dregið hafi úr atvinnuleysi.

Að taka ekki nauðsynlegar ákvarðanir er verst
Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ekki tekið á þessum vanda. Horft er framhjá honum. Þar er gert er ráð fyrir minni kostnaði ríkisins vegna atvinnuleysis en verið hefur. Hugmyndir um fjölgun starfa eru óraunhæfar. Í raun er líklegt að störfum fækki vegna aukinna skatta og álagna sem enn á að auka. En hvers er líka hægt að vænta af þeim sem ganga með bundið fyrir augu?

Grein birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2012