Hrikaleg niðurstaða í borginni

Ótrúlegt að pólitískir fulltrúar sem taka ekki betur á rekstri borgarinnar telji sig hafa eitthvað þangað að gera – þeir forgangsraða ekki og skilja ekki að það þarf að taka á honum stóra sínum svo kerfi belgist ekki út. Að þeirra mati er sanngjarnt að kerfið belgist út á kostnað borgara.

Útsvar í botni, stórfelldar og ósanngjarnar hækkanir Orkuveitunnar (tala nú ekki um að hækka meira þann lið sem ekki er hægt að kaupa annars staðar) og hækkanir á öðrum gjöldum.

A hluti er rekinn með 2,8 milljarða króna halla á meðan áætlun gerði ráð fyrir 66 milljónum í hagnað. Hagræðingarhugmyndir hafa engu skilað.

Hversu lélegt er þetta?

 

 

 

Læt fréttatilkynningu okkar fylgja hér fyrir neðan:

Fréttatilkynning borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins:

Borgarbúar greiða fyrir stóraukin rekstrarkostnað kerfisins,

– Aukin skattheimta, skuldir aukast, lítið aðhald í rekstri, áætlanir standast ekki og hagræðingar sem ekki skila neinum ávinningi

Ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram á fundi borgarstjórnar í dag. ,,Niðurstöður reikningsins staðfesta mun lakari afkomu en áætlanir gerðu ráð fyrir, ónógt aðhald, ófullnægjandi árangur í hagræðingu og almennt ranga forgangsröðun í þágu kerfisins en á kostnað fólksins,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Helstu niðurstöður ársreikningsins eru að rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um 2.808 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 66 mkr. Niðurstaðan er því verri en gert var ráð fyrir, sem nemur 2.874 mkr. Sama þróun er í samstæðunni, A- og B- hluta, en þar er rekstrarniðurstaðan neikvæð um 4.675 mkr en átti að vera jákvæð um 3.400 mkr.
Endurspeglar ár af mörgum röngum ákvörðunum

Hanna Birna segir ársreikninginn endurspegla ár af mörgum röngum ákvörðunum, hversu illa áætlanir meirihlutans standast og hversu lítill árangur hefur náðst í hagræðingu. Skatttekjur borgarinnar aukast um 16% á milli ára, sem þýðir að ætla megi að borgarbúar séu að greiða rúmlega 3.000 mkr meira í skatta en í fyrra.

Á sama tíma eykst rekstarkostnaður verulega á milli ára, samhliða því sem hann er mun hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. ,,Þannig vex kerfið á kostnað borgarbúa sem þurfa einmitt á því að halda að greiðslubyrði þeirra minnki. Borgarbúar líða fyrir það stefnu- og alvöruleysi sem ríkt hefur við stjórn borgarinnar á þessu kjörtímabili. Til að mæta þessum vexti í kerfinu seilist meirihlutinn stöðugt dýpra í vasa borgarbúa og lætur þá greiða fyrir eigið stjórnleysi með stóraukinni skattheimtu,“ segir Hanna Birna og bætir því við að ársreikningurinn beri þannig ekki með sér góðar fréttir fyrir borgarbúa en staðfesti þá miklu gagnrýni sem verið hefur á fjármálastjórn meirihlutans.

Hanna Birna segir þennan viðsnúning til hins verra í rekstri borgarinnar og það hversu illa allar áætlanir standist, krefjast þess að meirihlutinn tileinki sér önnur og betri vinnubrögð við fjárhagsáætlunagerðina. ,,Borgarbúar eru einfaldlega að gjalda fyrir ranga forgangsröðun og vond vinnubrögð þessa meirihluta, samhliða því sem ársreikningurinn staðfestir að meintar hagræðingaraðgerðir meirihlutans skila ekki árangri, enda unnar án nokkrus samráðs við íbúa, starfsfólk eða kjörna fulltúa.“
Skuldir borgarinnar aukast um 56% frá 2009

Það er ekki eingöngu rekstrarkostnaður sem fer úr böndunum heldur hefur skuldsetning borgarinnar aukist um 56% á tveimur árum. Uppgreiðslutími lána fer hækkandi en árið 2009 hefði það tekið borgina 2 ár að greiða niður skuldir sínar en í lok árs 2011 tekur það borgina 5 ár að greiða niður skuldir. Þetta er áhyggjuefni þar sem að aðhald í rekstri borgarinnar er lítið og því gæti skuldaaukning orðið töluverð á næstu árum.
Umdeildar hagræðingaraðgerðir skila engu – rekstrarkostnaður menntasviðs eykst um 10%

Umdeildar hagræðingaraðgerðir í grunnskólum og leikskólum borgarinnar eru ekki að skila fjárhagslegum ávinningi. Þetta sést best þegar litið er til þess að í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir rekstrarkosnaði sem næmi 18,3 milljarði en raunkostnaður varð 19,9 milljarður eða 9% aukning á kostnaði. Þetta staðfestir að það sem meirihlutinn hefur boðað sem helstu hagræðingaraðgerðir sínar hafa engum árangri skilað.