Úttekt á söluferli OR

Eftirfarandi tilkynningu var send frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík vegna þess ótrúlega sem átti sér stað þegar eignir OR voru seldar í laumi. Tilkynningin var send á fjölmiðla í gær að borgarráðsfundi loknum.

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu eftir því á borgarráðsfundi sem var að ljúka að innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar og borgarlögmaður fari yfir söluferli vegna eignarhluta í Enex Kína og Envent Holding. Óskað er eftir úttektinni þar sem staðfest hefur verið að OR seldi eignarhluti í þessum félögum án auglýsingar og eðlilegra upplýsinga til stjórnarmanna í Orkuveitunni.

Beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna í heild sinni:

Beiðni um úttekt á vinnubrögðum OR vegna sölu opinberra eigna

Staðfest hefur verið að OR seldi eignarhlut REI í tveimur félögum (Enex Kína og Envent Holding) án auglýsingar og eðlilegrar upplýsingar til stjórnarmanna í OR og kjörinna fulltrúa. Þar sem stjórnendur fyrirtækis og fulltrúar meirihlutans hafa svarað fyrir þessa aðgerð með þeim hætti að þetta standist alla skoðun, samþykktir og reglur, óska borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri [græn] eftir sérstakri úttekt á sölunni.

Í þeirri úttekt er óskað eftir því að innri endurskoðandi skoði ferlið með hliðsjón af samþykktri skýrslu stýrihóps um málefni OR og REI; ítrekuðum ábendingum umboðsmanns Alþingis; stjórnsýsluúttekt innri endurskoðandi frá september 2008; bókunum og samþykktum eigenda og stjórnar OR um meðferð slíkra ákvarðana; og sérstökum verklagslegum stjórnar OR frá nóvember 2010. Einnig er óskað eftir því að skoðað verði hvort ætla megi að slíkt ferli án opinberrar auglýsingar hafi skilað fyrirtækinu fullnægjandi verði fyrir umræddar eignir. Mikilvægt er einnig að fram komi hvort það sé ásættanlegt að sömu starfsmenn OR fari fyrir því að réttlæta og rökstyðja ákvörðunina og tóku hana og framkvæmdu sem stjórnarmenn í dótturfélagi OR. Að auki fylgi úttektinni álit borgarlögmanns á lagalegri stöðu málsins og þeim skýringum forsvarsmanna OR að ekki hefði verið hægt að vinna málið með öðrum hætti.“