Kerfið verndað á kostnað íbúa – 5 ára skatta og gjaldastefna

Birti hér fjölmiðlatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn:

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar lagði í dag fram frumvarp að fimm ára fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg. Í umræðum um frumvarpið kom fram að ekki er um neina pólitíska stefnumótun að ræða heldur einungis framreikning fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar. Spurningunum um það hvert stefnt sé í Reykjavík næstu fimm árin, hvað við þurfum að gera til að ná því markmiði og hvenær okkur gæti tekist það, er í engu svarað i frumvarpinu. Þannig er borgarbúum ekki veitt sú framtíðarsýn og það sameiginlega markmið sem kallað hefur verið eftir.

Spurningum um það hver hafi leitt vinnu vegna frumvarpsins, hvort það sé unnið af kjörnum fulltrúum eða embættismönnum var svarað þannig að ,,fjármálastjóri hefði borið þessa vinnu á höfði sínu og herðum“ og kjörnir fulltrúar lítið sem ekkert haft af því afskipti. Borgarstjóri sem ber ábyrgð á frumvarpinu sagðist þannig hafa gert það eitt að fylgjast með þessari vinnu og funda með fjármálastjóra vegna stöðu þess.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna harðlega þessi vinnubrögð og telja að vegna þeirra sé fimm ára áætlunin hvorki nægilega vel undirbúin né nægilega vel unnin. Alla pólitíska forystu, framtíðarsýn og ábyrgð skorti af hálfu meirihlutans, auk þess sem enginn borgarfulltrúi hafi séð plaggið fyrr en 2 dögum fyrir umræðuna þrátt fyrir að þessi vinna hafi skv. yfirlýsingum átt að liggja fyrir i lok september.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokksins sagði í dag að meirihlutinn virðist án nokkurrar umræðu færa sitt lýðræðislega umboð frá borgarbúum til embættismanna, sem sé enn eitt dæmið um það hvernig forgangsröðunin í Reykjavík er á kostnað fólksins en fyrir kerfið.

Við teljum að með forgangsröðun sinni sé Reykjavík að vernda kerfið á kostnað fólksins og okkur finnst það ekkert betri aðferð þegar henni er beitt fimm ár í röð, eins og í fyrirliggjandi áherslum, en þegar henni er beitt eitt ár í einu. Og í þessari áætlun er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurborg hyggist láta af slíkri skattheimtu eða stefni að því að bjóða íbúum sínum lægri skatta en í öðrum sveitarfélögum. Skilaboðin til almennings í þessu plaggi eru því nákvæmlega þau sömu og þau hafa verið allt þetta kjörtímabil – kerfið þenst út á kostnað ykkar og það stendur ekki til að breyta því.