Sameiningar skóla í Reykjavík

Á síðasta borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn 7. febrúar urðu heitar umræður um sameiningarmálin í Reykjavík. Sjálfstæðismenn gagnrýndu vinnubrögð meirihlutans harðlega enda um algjört sýndarsamráð að ræða, hér hefur meirihlutinn verið að kynna sínar tillögur en ekki tekið tillit til þess sem foreldrar og fagfólk hefur að segja.

Þetta bréf sem barst okkur pólitískum fulltrúum í Reykjavík segir allt sem segja þarf. Bréfið sendi Guðmundur Sigurðsson og með hans leyfi birti ég bréfið hér.

„Ég sem kjósandi í Reykjavík, íbúi Hamrahverfis og jafnframt foreldri barns í Hamraskóla óska eftir að þú hafir aðkomu að málum Hamraskóla varðandi sameiningarmál í sunnanverðum Grafarvogi.

Gífurleg óánægja ríkir meðal foreldra barna í skólanum með fyrirhugaðan flutning unglingadeildir yfir í Foldaskóla.

Samkvæmt samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar varðandi lýðræði og þátttöku er talað um að samráð verði haft við íbúa og foreldra í skipulags-, umhverfis- og skólamálum, það gert markvissara og stutt við aðkomu þeirra að lykilákvörðunum. Einnig var talað um að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfanna með eflingu hverfaráða, hverfatengdar þjónustu og forgangsröðun í rekstri innan hverfis. Hvar eru efndirnar??????
Að mati foreldra hefur samráð algerlega skort, samtal er ekki sama og samráð!

Rökin fyrir sameiningunni eru að það eiga að sparast 28,5miljónir árið 2013.
Það eru samtals 139 nemendur sem áætlað er að flytjist í unglingadeild árið 2014 sem gerir 205 þúsund á hvern nemanda. Við fáum ekki sundurliðun á þessu og á fundi borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur þriðjudaginn 7. febrúar 2012 gat Oddný Sturludóttir ekki frætt aðra borgarfulltrúa um það. En hafði mörg og fögur orð um hvað allir væru duglegir og jákvæðir en mættu að sjálfsögðu hafa aðra skoðun eins og alltaf er. Hafa aðra skoðun á hverju spyr ég??

Faglegu rökin eru að í safnskóla er hægt að bjóða upp á fleiri valgreinar fyrir nemendur og stuðla þar með að aukinni sérhæfingu kennara. Þannig má í auknum mæli koma til móts við þarfir sérhvers nemanda.
Sérdeild í Hamraskóla verður lögð niður með afleiðingum sem engin getur ímyndað sér hvaða afleiðingar hafa fyrir þessa mjög svo brothættu nemendur sem aðrir nemendur í Hamraskóla hafa tekið í sinn hóp með góðum árangri. Í stýrihóp hafa kostir og gallar stórra unglingadeilda mikið verið ræddir og eins hvernig starfinu í Hamraskóla og Húsaskóla verði fram haldið án unglingadeilda. Við þessum hugleiðingum fáum við enginn svör einnig höfum við beðið um að fá að vita hvaða fagaðilar hafa mælt með þessu. Sumir foreldrar eru þá komnir með börn í tvo grunskóla með því óhagræði sem af því hlýst. Þá má búast við að þau 50-60 börn úr Hamrahverfi verði í auknu mæli keyrð í skólann með þeim ókosti sem það hefur í för með sér svo sem eldsneytiskostnaður umferðar þungi og ég tala nú ekki um mengun. Foreldrar hafa valið sér þetta hverfi með þeim kostum og göllum sem það býður uppá, og hefur lítill fámennur skóli verið talinn kostur. Þá má nefna að Hamraskóli hefur komið mjög vel út í kennslu í samanburði við aðra skóla og tel ég það vera skylda ráðamanna að viðhalda þeim góða árangri sem þar hefur náðst.

Ég geri þá kröfu til Besta flokksins og Samfylkingarinnar að standa vörð um okkar ágæta skóla og tryggja velferð barna okkar með því að fallið verði frá þeirri ákvörðun að flytja unglingadeild Hamraskóla í Foldaskóla.

NB: Það var sorglegt að hlusta á umræður á áðurnefndum fundi borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur þriðjudaginn 7. febrúar 2012 ar sem borgarfulltrúar minnihlutans spurðu spurninga og fulltrúar meirihlutans höfðu mörg og falleg orð um ekki neitt.“