Nú er komið vel inn í seinni hluta kjörtímabils meirihluta Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna í borginni. Flestum er orðið ljóst að lítið hefur áunnist.
Menntun á að vera algjört forgangsmál
Gott samfélag býr að góðu menntakerfi. Matið er einfalt. Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja. Árangur íslenskra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í okkar samanburðarlöndum. Um þetta er enginn ágreiningur. Því hefði mátt halda að helsta áhersla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar til að gera betur. Því miður blasir annað við.
Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helst á dagskrá meirihlutans. Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti. Hvergi hefur orðið vart við að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri. Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna svo að þeir geti nota þær til að efla eigið starf.
Ljóst er að hér verður að gera betur. Vinna verður að því að fá fram breytingar í kennsluháttum og breytingum á aðbúnaði. Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu. Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn.
Velferðinni er ábótavant
Biðlistar eftir þjónustu eru einkenni Reykjavíkurborgar. Fötluðu fólki sem þörf hefur fyrir þjónustu vegna athafna daglegs lífs er vísað á biðlista. Árið 2017 getur slíkt ekki gengið upp, það vitum við öll. Það á að vera skylda þeirra sem stjórna borginni að forgangsraða betur í þágu þeirra sem minna mega sín.
Grunnþörfum eins og þessum ætti ekki að vera hægt að vísa á biðlista. Sérstaklega ekki ef ástæðan er sú að borgarkerfið getur ekki mannað í þjónustustörfin. Við blasir að skortur er á nauðsynlegri uppstokkun til að mæta þörfum og eðlilegum kröfum fatlaðra og aldraðra. Aldraðir og fatlaðir eiga að geta valið þjónustu á eigin forsendum í stað þess að vera þiggjendur fyrirfram ákveðinnar þjónustu. Viðurkenna þarf ákveðna þjónustuþarfir og forgangsraða svo í fjármálum borgarinnar svo að þeim megi mæta. Það er ekki nóg að bjóða upp á heimsendan mat en sleppa þjónustunni ef vitað er að viðkomandi þarf aðstoð við að matast.
Fyrir liggur að þjónustan verður að taka stakkaskiptum á næstu árum. Væri minnsti vilji fyrir hendi væri borgarkerfið á góðri leið með að innleiða slíkar breytingar þessa dagana. Meirihlutinn í Reykjavík stendur í vegi fyrir framþróun. Ekki tekst að fjármagna sjálfsögð verkefni og áhersla á að breyta stöðnuðum aðferðum til að koma betur til móts við þá sem þurfa á þjónustu að halda er ekki til staðar.
Grunnþjónusta og gjöld
Í stað þess að forgangsraða er leitað enn dýpra í vasa borgarbúa. Útsvarið í Reykjavík er í botni, það hæsta samkvæmt lögum. Tekjur borgarbúa hækka og tekjur borgarsjóðs hækka í hlutfalli af því. Fasteignagjöld hafa hækkað gríðarlega, sérstaklega á borgarbúa. Orkugjöldin hafa margfaldast á undanförnum árum og meirihluti borgarstjórnar þakkar Planinu, finnst í góðu lagi að taka út arðinn en hvergi minnst á borgarbúa sem tóku á sig gríðarlegar hækkanir. Nei, þeir skulu áfram borga sín gjöld. Sorphirðan hækkar gjöld en dregur úr hirðutíðni. Engin ástæða er talin til að bjóða þjónustuna út til að draga úr útgjöldum eins og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gera. Samgöngukerfið er í ólestri, ásýnd borgarinnar er farin að líkjast vanþróuðu samfélagi. Húsnæðisvandinn gríðarlegur, viðvarandi og ýtir undir fátækt og á honum axlar meirihlutinn enga ábyrgð.
Borgarstjóri er lævís í kynningarmálum. Hann svarar ekki gagnrýni heldur býr til nýjar áætlanir og kynnir þær með miklum látum þegar að fyrri áætlanir hafi ekki staðist. En hingað og ekki lengra. Borgarbúar hafa áttað sig þessum þreytta og síendurtekna talnaleik. Nú þarf að hvíla flugeldasýningarnar og hætta að hafa borgarbúa að fíflum.
Grein birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2017