Hið óskiljanlega

Óskiljanlegt er að meirihlutinn í Reykjavík hafi ekki lagt meira á sig í þágu þeirra sem nú upplifa algjörar hremmingar á húsnæðismarkaði. Húsnæðisskortur veldur því að fólk býr við óviðunandi aðstæður og himinhá húsnæðisgjöld. Sinnuleysi meirihlutans stuðlar að fátækt, efnaminna fólk er ekki lengur velkomið og borgin stendur ekki lengur undir nafni sem fjölmenningarborg.

Nýjar áætlanir til að kaupa sér tíma?
Í stað þess að sinna því grunnhlutverki að úthluta fleiri lóðum fór tími meirihlutans í að sýna almenningi fagurlega gerðar hönnunartillögur. Löngu var þó ljóst að þessar byggingar yrðu ekki tilbúnar fyrr en á eftir áætlaðan tíma og myndu lítið nýtast þeim sem mest þurfa á að halda.

Þegar meirihlutinn var svo farinn að þreytast á að hlaupa undan sannleikanum á enn einn kynningarfundinn var ákveðið að kynna nýja uppbyggingaráætlun. Þannig telur meirihlutinn að hann geti breitt yfir vangetu sína til að uppfylla stóra kosningaloforðið um þúsundir íbúða sem aðeins náði svo langt að komast á áætlun. Til þess að takast á við vandamálið, sem var orðið vandræðalega augljóst, varð úr að meirihlutinn skellti fram nýrri áætlun með enn fleiri íbúðum í því skyni að kaupa meiri tíma til að halda sama leiknum áfram. Algjörlega óskiljanlegt.

Við einhverjar aðstæður gæti þetta þótt sniðugt kynningarbragð. En alvarleiki málsins kemur svo sannarlega í veg fyrir það nú. Þegar leiga á litlu herbergi er komin yfir hundrað þúsund á mánuði er fokið í flest skjól fyrir fólk á leigumarkaði, vitað er að fjölskyldur búa í óásættanlegu húsnæði en geta sig hvergi hreyft þar sem ekkert annað er í boði. Fjöldi fólks er á hrakhólum og býr inn á fjölskyldu og vinum. Í slíkum aðstæðum er staða þeirra tekjulægstu, einstæðinga og innflytjenda sérstaklega erfið en við það situr því lausnir eru engar. Þetta kemur ekki aðeins fram í fjölmiðlum heldur er einnig saga félagsráðgjafa og fólks sem vinnur í félagsþjónustunni enda erfitt að vera ráðgjafi í slíkri stöðu.

Reykjavíkurhúsin – nýjung eða töf á uppbyggingu?
Á meðan boðar meirihlutinn lausnina “Reykjavíkurhúsin”. Meirihlutinn telur Reykjavíkurhúsin lykilþátt í stefnu borgarinnar um aukna fjölbreytni á húsnæðismarkaði. Þarna séu fjölbýlishús þar sem áhersla verður lögð á að leigja fjölbreyttum hópi einstaklinga og fjölskyldna með ólíkan bakgrunn. Lausnin hefur ekki enn hefur verið tekin í notkun þó að talað hafi verið um hana í mörg ár. Meirihlutinn leggur mikla áherslu á þessa lausn í máli sínu því mætti halda að þarna væri um einhverja stórkostlega nýjung að ræða sem boðað gæti betri tíð. En þegar betur er að gáð sést að þarna er lítið annað á ferðinni en töf á uppbyggingu. Hugmyndin virðist því miður ekki ganga út á annað en það að blanda fólki með ólíkan félagslegan bakgrunn saman í fjölbýlishús, og vera nógu lengi að því. Öllu á þó að tjalda til við að gera þetta sem glæsilegast og valin var líklega ein dýrasta lóð Reykjavíkurborgar fyrir verkefnið. En fyrir andvirði slíkrar lóðar hefði mátt nýta sölutekjurnar til uppbyggingar í þágu mun fleiri.

Meirihlutinn ákvað einnig að hugmyndinni að Reykjavíkurhúsunum skyldi fylgja skilgreining á nýjum félagslegum hópi til að mæta kröfum um það sem kallast “félagsleg blöndun” á fagmáli. Nýji hópurinn kallast “efnaminni”. Hinir efnaminni eru ekki þeir sem eru verst staddir en engu að síður hópur sem ræður illa við að ná endum saman þegar húsnæðiskostnaður hefur hækkað svo gríðarlega vegna framboðsskorts og hárra leigu- og húsnæðisgjalda. Staða sem meirihlutinn í Reykjavík hefur leynt og ljóst unnið að með stefnu sinni. Á meðan er verst staddi hópurinn þó sniðgenginn.

Það óskiljanlegasta af því óskiljanlega
Eins og oft hefur komið fram eru þúsund fjölskyldur á biðlistum eftir félagslegum íbúðum í Reykjavík. Uppbyggingarþörf hefur ekki verið sinnt. Meirihlutinn hefur sniðgengið þar sína helstu skjólstæðinga og eitt af mikilvægustu hlutverkum sínum.

Meirihlutinn í Reykjavík er samsettur af alls kyns vinstri flokkum og á stefnu margra er erfitt að átta sig. Aðferðirnar við að ná fram stefnumörkuninni eru líka algjörlega óskiljanlegar. Einn flokkur telur sig þó vera lengst til vinstri og sá hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum. Og þá kemur að því óskiljanlegasta af því óskiljanlega en áhyggjur vinstri grænna af húsnæðisvandanum virðast hafa gufað upp.

Þess má minnast að Vinstri græn stóðu vaktina ásamt Sjálfstæðismönnum og gagnrýndu meirihlutann í Reykjavík á síðasta kjörtímabili vegna of lítillar fjölgunnar félagslegra íbúða. Því miður situr sá flokkur nú á þessu kjörtímabili með hendur í skauti sér í faðmi kynningarstjórans eins og aðrir meðlimir meirihlutans.

Við þær aðstæður sem upp eru komnar hjá fjölda fjölskyldna í borginni hljótum við að fara fram á að þeir sem með völdin fara í Reykjavík hætti að einblína á að sérsníða lausnir út frá því hversu glæsilegar þær verði á kynningarfundi og einbeiti sér að því að hlutverki að aðstoða fólk í neyð.

Grein birtist í Morgunblaðinu 8. maí 2017