Á dögunum var haldin ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði og samantekt og ályktun af þessum fundi barst meðal annars til mín. Áhugavert er að lesa hvað er þeim efst í huga og ég deili því hér með ykkur.
Borgarstjórn situr fundi með ungmennaráðsfulltrúum í Reykjavík einu sinni á ári. Fróðlegt hefur verið að heyra þeirra tillögur. Reyndar hefur staðan nú oft verið sú að sömu tillögurnar eru lagðar fram ár eftir ár því þrátt fyrir að þeim sé kastað inn í borgarkerfið virðast þær ekki ná að berast upp að strönd á réttum stað á því eina ári sem líður á milli fundanna.
Fram kemur margt áhugavert í ályktun af ráðstefnunni. Til dæmis að á síðustu 10 árum fái nú fleira ungt fólk tækifæri til að móta samfélagið og koma að ákvarðanatöku á öllum stigum þess með þátttöku í ungmennaráðum. Fram kemur gagnrýni á samráðsskort við ungmennin sjálf þegar breytingar voru innleiddar á menntakerfinu og að mikið álag sé á nemendum.
Mikil áhersla er lögð á geðheilbrigði og fræðslu. Ályktað er um að boðið verði upp á sálfræðiþjónustu í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Einnig að bæta þurfi heilbrigðiskerfið, sérstaklega úti á landi.
Ungmennin upplifa þekkingarleysi gagnvart fjármálum, réttindum og skyldum á atvinnumarkaði og vilja aukna fræðslu í grunn- og framahldsskólum um þau málefni.
Mikið er lagt upp úr því að raddir ungmenna heyrist sem víðast og krefjast þau aukins aðgengis að nefndum innan sveitarfélaga.
Sjálfsagt mál ætti að vera að koma til móts við ungmennin.