Fyrir rúmum 100 árum voru viðhorfin til þeirrar félagsþjónustu sem við þekkjum í dag að mótast í Reykjavík sem annars staðar. Konur fóru að kveðja sér hljóðs og standa saman að því að aðstoða þá sem ekki gátu björg sér veitt. Ein þessara kvenna var Ólafía Jóhannsdóttir, en í síðasta mánuði voru liðin 150 frá fæðingu hennar. Ólafía var stórmerk kona og ein að forvígiskonum íslenskrar kvennabaráttu. Síðar var hún vegna mildi sinnar og hjálparstarfa þekkt í Noregi og er þar í hávegum höfð.
Skilaboð Ólafíu
Margt af því sem mótaðist þarna er enn í fullu gildi. Greinar Ólafíu eru áhugaverðar yfirlestrar. Í kvennablaðinu Framsókn árið 1899 skrifar Ólafía grein sem ber heitið „Góðgerðasemi“ og lýsir vel um hvers konar starf var að ræða. Í greininni kemur eftirfarandi fram:
„Allir sem einhvern tíma hafa reynt það að vera upp á aðra komnir, vita hvað það er hart aðgöngu. Og allir, sem veitt hafa lífinu nokkra eptirtekt, vita líka, að sá sem ekki er efnalega sjálfbjarga, missir optast nær smámsaman sjálfstæði sitt og siðferðislegt manngildi. Það er því afar mikill vandi að gefa öðrum, því það þarf að taka tillit til allra þarfa þeirra, ekki síður andlegra en efnalegra.“
Og síðar í greininni: „Engin hjálp er eins mikils virði eins og sú, sem gerir manninn færan um að vinna sjálfur fyrir nauðþurftum sínum.“
Hvetjum til sjálfshjálpar
Sterkt kemur fram hversu mikilvægt það er að veita hjálpina á þann hátt að það byggi fólki upp og stuðli að sjálfsvirðingu og sjálfstæði. Ekki er nóg unnið í þessa veru í Reykjavík þegar horft er til þeirra sem hafa fulla getu til þess að taka að sér verkefni. Í Reykjavík hefur fjárhagsaðstoð miðað við að greiða út bætur en skyldur á móti hins vegar litlar sem engar. Hvers konar skilaboð eru það? Að ekki sé þörf á þátttöku viðkomandi eða að samfélagið þurfi ekki lengur á viðkomandi að halda? Slíkt getur ekki verið til þess fallið að viðhalda sjálfsvirðingu. Hér verður að gera betur. Of mikil áhersla hefur verið lögð á dýrar og flóknar lausnir í stað þess að nýta til dæmis frumkvæði fólksins sjálfs. Ekki má vera erfiðara að vera á vinnumarkaði en þiggja fjárhagsaðstoð. Ef betra er að sitja heima en að taka starf á lægstu launum eins og vísbendingar eru um er ekki verið að hjálpa fólki á uppbyggilegan hátt.
Frumkvæði og sveigjanlegar lausnir
Allt frá upphafi kjörtímabilsins höfum við Sjálfstæðismenn gagnrýnt þetta viðhorf meirihlutans harðlega. Framan af var talið að Reykjavíkurborg ætti ekki að vera vinnumiðlun og því var seint brugðist við. Svo var farið af stað á skjaldbökuhraða að byggja upp afar flókið samstarf við ríkið um að skapa ný störf. Náðst hefur árangur, en of lítill og of seint. Lausnirnar sem vantar verða að vera miklu sveigjanlegri, unnar á forsendum þeirra sem eiga að taka þátt. Dýr yfirbygging er ekki svarið heldur þarf að ýta undir frumkvæði til að skapa og taka að sér verkefni. Stefna okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík er skýr. Byggjum á sjálfsvirðingu og sjálfstæði.