Samfylking og Besti flokkur áhugalaus um atvinnumál í Reykjavík

Á borgarstjórnarfundi í gær kom glögglega í ljós að enginn áhugi er hjá Besta flokki og Samfylkingu að skoða hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu hafa á atvinnumál í borginni. Í tvo mánuði hefur legið fyrir tillaga um að borgin geri úttekt á þessum áhrifum sem meirihlutinn hefur alltaf verið frestað. Maður spyr sig hvort menn telji þetta ekki hagsmunamál borgarinnar eða fyrir hvern þeir eru að vinna?

Eftirfarandi er fréttatilkynning frá sjálfstæðisfólki í borgarstjórn:

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag þar sem farið er fram á úttekt á áhrifum breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu á atvinnulif í Reykjavík. Einnig er farið fram á það að Reykjavíkurborg veiti Alþingi umsögn sína um málið með hliðsjón af hagsmunum Reykjavíkur.

Í umræðunum í borgarstjórn í dag benti Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins á að tillaga um þessa úttekt hafi verið flutt í borgarráði í lok júní, en hafi nú verið í frestun á þeim vettvangi í rúmlega tvo mánuði. Á sama tíma hafa hagsmunaaðilar og mörg sveitarfélög sent Alþingi umsagnir sínar, þar sem bent er á ýmsa vankanta frumvarpsins og áhrif þess á uppbyggingu í atvinnulífi og lífskjör í landinu, þ.m.t. Reykjavík. Hanna Birna sagði þetta aðgerðar- og afstöðuleysi meirihlutans bera vott um ,,algjört áhugaleysi meirihlutans á brýnu atvinnumáli í Reykjavík, auk þess að vekja upp spurningar um hvort borgaryfirvöld er uppteknari við að verja áherslur ríkisstjórnarinnar en hagsmuni borgarbúa.“

Hanna Birna benti einnig á mikilvægi sjávarútvegs fyrir Reykjavík, en um 20 % aflaverðmætis kemur til hafnar í Reykjavík. ,,Sjávarútvegurinn er einn af stoðum reykvísks atvinnulífs. Borgaryfirvöldum ber skylda til að skoða áhrif þeirra umfangsmiklu breytinga sem boðaðar hafa verið og greina hvernig betur verði á málinu haldið. Sé meirihlutanum alvara með því að búa atvinnulífi hér góð skilyrði, hlýtur samþykkt slíkrar úttektar að vera sjálfsögð og mikilvæg. Að það taki meirihlutann marga mánuði að afgreiða slíka tillögu vekur furðu, ber þess merki að meirihlutinn vill ekki ræða málið og skaðar með því hagsmuni borgarbúa.“