Völundarverkefnið – Endurgerð gamalla húsa í Reykjavík

Eitt af átaksverkefnum Reykjavíkurborgar heitir Völundarverk – Reykjavík. Völundarverk er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar, Fræðslusetursins Iðunnar, húsafriðunarnefndar og Minjasafns Reykjavíkur. Verkefnið snýst um að fá atvinnulausa smiði, arkitekta og fleiri sem koma að smíði húsa til að læra þær aðferðir og handverk sem þarf til að viðhalda húsum sem eru jafnvel eldri en 100 ára. Völundarverkefnið á sér sænska fyrirmynd úr sýslunni Halland í Svíþjóð. Markmið verkefnisins í Svíþjóð voru þrjú, í fyrsta lagi að bjarga störfum en þar var mikið atvinnuleysi. Í öðru lagi, að viðhalda handverki og aðferðum sem nýttar voru þar frá fornu fari. Í þriðja lagi að bjarga gömlum húsum sem mörg hver voru illa á sig komin.

 

Völundur – Reykjavík hefur sömu þrjú markmið og verkefnið í Svíþjóð. Það sama á við hér og átti við þar, verðmæt tækifæri eru í því að týna ekki niður þeirri kunnáttu sem felst í endurgerðinni og handverkinu sem fylgir henni, við þurfum að sinna viðhaldi gamalla húsa betur og hér er mikið atvinnuleysi. Tildrög verkefnisins eru þau að í vor kom hingað til lands forsvarsmaður Halland verkefnisins og kynnti fyrir Reykvíkingum frábæran árangur verkefnisins í Svíþjóð. Borgaryfirvöld sýndu verkefninu mikinn áhuga og sáu strax að hér gæti verið á ferðinni áhugaverð hugmynd. Fljótlega var ákveðið að hefjast handa við að kanna hvernig hægt væri að nýta sömu aðferðir hér á landi. Fyrir um 2 mánuðum síðan var svo auglýst eftir atvinnulausum smiðum til að taka þátt í fyrsta námskeiðinu um endurgerð gamalla húsa og áhuginn lét ekki á sér standa. Rétt er að geta þess að til stendur að halda fleiri námskeið og sníða þau að fleiri fögum en smíðum. Undirbúningsnámskeiðið skiptist í bóklega og verklega kennslu. Húsakostur Árbæjarsafns var nýttur í kennslunni og farið var í vettvangsferðir á áhugaverða byggingarstaði til þess að fylgjast með framkvæmdum þar, t.d. var fylgst með uppbyggingu í Austurstræti/Lækjargötu sem nú á sér stað.

 

Húsin sem Völundur hefur nú hafist handa við eða mun gera von bráðar eru Norðurpóllinn sem áður stóð við Hverfisgötu 125, Gröndalshúsið sem stendur nú við Vesturgötu 16b og Laugavegur 4 og 6. Norðurpóllinn var byggt árið 1904 og stendur nú á flutningavagni í geymslu á Gufunesi. Þetta er timburhús sem er að mestu óbreytt frá 1920. Í Norðurpólnum var ein fyrsta veitingastofa bæjarins og er stór hluti af sögu Laugavegs sem aðkomuleiðar inn í bæinn. Húsið er nú nánast uppgert að utan. Stefnt er að því að húsið verði sett niður á núverandi bílastæði við Bankareit, sunnan við Hlemm og verði heilmikil prýði á efri hluta Laugavegs. Í Gröndalshúsi bjó Benedikt Gröndal, skáld og náttúrufræðingur og er það kennt við hann. Til hefur staðið að færa húsið og gera það upp um nokkurn tíma. Nú er byrjað að gera við húsið þar sem það stendur við Vesturgötuna til að undirbúa flutning þess út á Örfirisey þar sem það mun standa á meðan það verður gert upp. Endanleg staðsetning hússins er óákveðin.

 

Norðurpóllinn við Hverfisgötu, mynd af vef Reykjavíkurborgar.
Norðurpóllinn við Hverfisgötu, mynd af vef Reykjavíkurborgar.

Unnið er að hönnun og endanlegu útliti húsanna við Laugaveg 4 og 6 sem staðið hafa þar frá 1890 og 1871. Þegar hönnunartillögurnar liggja fyrir mun verða farið í vinnu við að endurbyggja húsin. Völundarverkefnið er dæmi um hvernig tækifæri geta búið í breyttum aðstæðum sem getur leitt til enn meiri áhuga og breitt út þekkingu á því hvernig sinna ber menningarminjum okkar.

 

Áslaug María Friðriksdóttir

Höfundur er formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar, situr í stjórn Völundar – Reykjavík og er varaborgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

 

Grein í Miðborgarpóstinum fimmtudaginn 10. desember 2009