Skyggni ágætt

Viðtal í Morgunblaðinu sunnudaginn 5. júlí 2009

 

Áslaug María: „Pabbi er sveitastrákur og skáti. Hann var mikið í sveit á yngri árum og á sterkar rætur í sveitinni. Dvölin á Auðunarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu, þar sem afi Sophus fæddist, mótaði hann mikið og hann þreytist aldrei á að tala um sveitina. Hann er svolítið gamaldags, gömlu gildin eru hans gildi, sveitarómantíkin í hávegum höfð.“

 

Gráglettin og stríðin

 

Friðrik: „Á sömu stundu og Áslaug kom í heiminn fyrir tæplega 40 árum stigu Bandaríkjamenn fyrstir manna fæti á tunglið og því var hún kölluð Luna á fæðingarheimilinu. Frá fyrsta degi var hún mjög róleg og yfirveguð og virtist búa yfir miklu jafnaðargeði. Þannig er hún enn og það einkennir hana að hún sýnir ætíð mikla þolinmæði.
Hún og Gabríela, systir hennar, hafa alltaf verið mjög samrýndar enda aðeins tvö ár á milli þeirra. Þegar Áslaug lærði að lesa las hún strax mjög mikið. Einhverju sinni fengu þær veggkort af fuglum Íslands og þá orti Áslaug vísu en Gabríela sagði mér einhvern tíma að í æsku hefði hún öfundað Áslaugu af því að vera skáld. En vísan er svona:

 

Heill og sæll, lóuþræll.

Þú ert líkur spóa.

Ég veit að þú ert vaðfugl hér

í ísköldum flóa.

 

Þegar Gabríela lærði svo að lesa sá hún að vísan var samin úr upplýsingum á kortinu.

 

Systurnar voru oft í Hnífsdal á sumrin hjá skyldfólki sínu í móðurætt og á unglingsárunum unnu þær þar í fiski. Þessi vinna mótaði unglingsárin. Áslaug var líka í sveit í Steingrímsfirði og þar var harla lítið um aðrar skepnur en kindur. Þess vegna hafði hún með sér naggrís, sem hún átti, og búr og þótti sveitafólkinu það undarlegt, en hún færði búrið reglulega á hlaðinu svo hann fengi örugglega nóg gras að éta. Dýrin hafa fylgt henni síðan og hún er til dæmis með villikött, sem hún tók að sér, þegar hún bjó við Ingólfsstræti. Hann týndist en kom síðar í leitirnar og unir sér vel hjá henni á Skólavörðustígnum enda hefur hún alltaf haft gaman af dýrum. Áslaug er líka mjög vinaföst. Hún hefur til dæmis alltaf haldið tengslum við vinahópinn frá því við bjuggum á Öldugötunni og á trausta vini sem hún kynntist þegar við bjuggum í Smáíbúðahverfinu.“

 

Staðfesta

 

„Áslaug vill ná sínu fram en gerir það ekki með neinum látum og snemma sýndi hún mikla staðfestu í ákvörðunum sínum. Þegar hún var átta eða níu ára sagðist hún hafa ákveðið að læra á píanó. Nokkrum árum áður hafði eldri bróðir hennar, Jóakim, byrjað að læra á hljóðfæri og mér féll það vel að hann lærði á munnhörpu enda er hún miklu umfangsminna hljóðfæri en píanó. En það var ekki nokkur leið að hreyfa við Áslaugu. Munnharpa kom ekki til greina og þaðan af síður blokkflauta. Hún hafði talað við píanókennarann áður en hún ræddi málið við foreldrana og sagðist ætla að læra á píanó. Fyrir vikið urðum við að kaupa píanó og hún hélt áfram píanónámi í mörg ár.
Áslaug er afskaplega róleg. Hún á sérstaklega auðvelt með að sinna mörgum viðfangsefnum í einu, hafa mörg járn í eldinum, og ekki hvað síst felst styrkur hennar í því. Þegar vinna þarf fyrir marga er það kostur að geta skipt úr einu verkefni í annað eins og ekkert sé og það vefst ekki fyrir Áslaugu.

 

Það virðist ekki hafa mikil áhrif á Áslaugu þótt ekki sé allt í röð og reglu í kringum hana. Hún er ákaflega skilningsrík og á auðvelt með að setja sig í spor annarra. Hún sýnir frumkvæði, kjark og áræði sem sést best á því að með vinkonum sínum stofnaði hún fyrirtæki í einkageiranum. Það eru ekki mjög margar konur sem gera það og síst háskólakonur, því það virðist oft vera þannig að þeim mun lengur sem fólk er í skóla því meiri líkur eru á því að vinnuvettvangurinn sé hjá hinu opinbera. Mér finnst það sérstaklega aðdáunarvert þegar konur ákveða með þessum hætti að standa á eigin fótum. Ég held að einkarekstur eigi vel við hana enda er hún sérlega dugleg og með báða fætur á jörðinni.

 

Við höfum verið svolítið saman í veiðiskap og hún hefur gaman af því. Guðrún Kristmundsdóttir, mágkona mín, tók hana í tíma og mér sýnist Áslaug vera lagin laxveiðikona. Henni finnst líka gaman að ferðast og hún gengur á Esjuna af og til til þess að halda sér í formi og til þess að slaka á. Hún er því ekki keppnismanneskja í þeim skilningi að hún geri hlutina með miklum látum, en hún heldur þétt á sínu, er staðföst og gefur ekkert eftir þegar því er að skipta. Hafi Áslaug fengið eitthvað í arf frá mér er það líklega gráglettni og stríðni, sem berst með húnvetnskum genum og fellur fólki misvel í geð.“

 

Sköpunargáfa og stjórnmál

 

„Þegar Áslaug og Gabríela voru litlar voru þær oft með brúðuleikhús, bæði fyrir fjölskylduna og nágrannana. Þær voru báðar gæddar ágætri sköpunargáfu til þess að búa til leikrit og sýna með tilheyrandi tilburðum. Gabríela var uppátækjasamari og ég man sérstaklega eftir því þegar hún og Höskuldur Kári Schram, vinur þeirra, máluðu háaloftið á Öldugötunni með grænni málningu og sykri og mjólk í bland. Það málverk er ekki það vinsælasta sem ég hef átt við um ævina enda var það meira en að segja það að ná þessari kornóttu málningu af timbrinu. Hlutverk Áslaugar var að stilla til friðar, þegar ég lét í ljós skoðun mína á þessari ótímabæru „innsetningu“ listamannanna.
Stjórnmálaþátttaka Áslaugar er hvorki mér að kenna né þakka. Ég hef aldrei troðið stjórnmálaskoðunum ofan í krakkana mína en það hefur glatt mitt hjarta þegar ég hef séð þá flesta hafa trú á grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Þegar Áslaug var orðin fullorðin tók hún upp á því að fara að skipta sér af stjórnmálum og gerði það alveg án þess að ég hefði milligöngu þar um. Ég held að hún eigi fullt erindi á þessum vettvangi. Áhuginn er mikill og mér sýnist árangur hennar vera ágætur á þessu sviði sem öðrum.

Áslaug er formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík. Í því sambandi langar mig til að rifja upp að eitt sinn þegar hún var lítil kom hún heim eftir að hafa verið hjá ömmu sinnu og alnöfnu. Meðferðis hafði hún forláta stein. Þegar hún var spurð hvar hún hefði fengið steininn, svaraði hún því til að María mey hefði gefið sér hann. Við efuðumst um að svo gæti verið, en hún staðhæfði aftur og aftur að hún hefði hitt Maríu mey á spítalanum og hún hefði gefið sér steininn. Þegar ég spurði ömmuna nánar út í þetta kom í ljós að þær höfðu heimsótt Maríu Maack á sjúkrahús og hún hafði gefið stelpunni steininn. María var landsþekkt kona og sá um rekstur farsóttarhússins. Hún var innsti koppur hjá „íhaldinu“ og formaður Hvatar í mörg ár. Mér finnst ekkert skrýtið að barnið skyldi rugla þeim saman Maríu mey og Maríu Maack, en ég velti því stundum fyrir mér í ljósi þess að Áslaug er núverandi formaður Hvatar, hvort María hafi séð það fyrir, þegar hún gaf þeirri litlu steininn.“

 

Ofurskipulagður

 

„Amma Áslaug var mjög mikill skáti og pabbi hefur alltaf verið eins. Hann skipuleggur allt í þaula og vinnur ákveðið að settu marki. En þetta skipulag getur gengið út í öfgar. Þegar við fórum saman í útilegur ofurskipulagði hann gjarnan ferðirnar. Hann skrifaði lista og þessir listar voru oftar en ekki hreinir brandarar. Við vorum bara að fara í stutta útilegu en listarnir bentu til annars.
Hann býður okkur oft í mat og þá spyr hann hvort við komum ekki klukkan sjö. „Já, við komum um sjö-leytið,“ svara ég. Skömmu síðar hringir hann aftur og spyr hvort tíminn standi ekki. Hann vill vera alveg viss um hvenær fólk mætir og hvort ekki allt standist sem um var rætt og ekkert um það bil. En þrátt fyrir meðfædda skipulagsgáfu er alltaf stutt í að léttleikinn og húmorinn taki völdin.“

 

Ættfróður stuðbolti

 

„Pabbi er mjög skemmtilegur og líflegur og það er mjög gaman að vera með honum. Hann elskar landið, söguna og ættfræði og er mjög fróður. Í öllum fjölskylduboðum ber ættfræði á góma og hann finnur alltaf einhverja tengingu við alla, sem eru til umræðu hverju sinni. Hann hefði orðið góður ættfræðingur. Hann hefði líka orðið góður leikari. Hann lék í Herranótt í Menntaskólanum í Reykjavík og hann á mjög auðvelt með að leika aðra, sem kryddar sögurnar óneitanlega skemmtilega. Þessi skemmtilega blanda færir líf í ættfræðina sem gæti annars verið helst til þurr.
Vel getur verið að fólki finnist hann alvarlegur út á við en það er örugglega vegna starfsins. Um leið og hann er kominn heim til sín flæðir sprellið upp úr honum og stríðnin er reyndar aldrei langt undan. Reyndar er Auðunarstaðafólkið þekkt fyrir að vera hinir mestu stríðnispúkar þannig að hann á ekki langt að sækja það.

Pabbi er mikið félagsljón. Hann tekur félagslífið til dæmis fram yfir hluti eins og að mála húsið sitt eða taka til í garðinum. Hann nær mjög vel til fólks og er stuðbolti. Það er gaman að hafa hann í boðum, því hann er hrókur alls fagnaðar, kann skemmtilegar sögur og segir skemmtilega frá. Jafnframt er hann mjög ábyrgur og vill að maður hugsi vel um annað fólk. Það stafar örugglega af því að vera elstur fjögurra systkina og ég veit að hann var mjög ábyrgur stóri bróðir.

Við tölum mikið um pólitík og þá sem hana stunda. Ættfræðin er aldrei langt undan og oft er það svo að áður en ég veit af er ég komin með 10 bækur í fangið af því mér verður á að nefna einhvern á nafn og spyrja hvort hann kannast við viðkomandi. Ég ætla ekkert að forvitnast um ættina en það verður ekki umflúið og áður en yfir lýkur hef ég fræðst um og skoðað myndir af skyldfólki viðkomandi í allar áttir. Okkur systkinunum finnst þetta stundum í hlægilega miklum mæli.

Föðurfólkið mitt er mikil skátafjölskylda. Skátar gera kröfur til sín, hafa ákveðin gildi í heiðri og taka þau alvarlega. Þessi hugsunarháttur hefur alltaf legið í loftinu í kringum pabba. Okkur systrunum var ekki endilega sagt mikið til þó að engin lausung væri í uppeldinu. Samt komu stundir þegar hann vildi nú svona leggja einhverjar línur en ég er ekki viss um að við höfum alltaf látið vel að stjórn. Reyndar held ég að við systurnar höfum verið alveg ferlegar. Þegar hann kom heim og byrjaði að segja okkur fyrir verkum gerðum við bara grín að honum. Hann greip það oftast á lofti enda mikill grínari og yfirleitt endaði þetta allt saman í einhverri gleði. Auðvitað voru til undantekningar og ég hef að sjálfsögðu nokkrum sinnum séð hann eins og þrumuský. Einu sinni málaði Gabríela systir háaloftið með heimatilbúinni málningu sem hún sullaði sjálf saman með hjálp góðs vinar. Þá urðu mikil læti. Vinur okkar þorði held ég ekki að láta sjá sig í margar vikur á eftir.

Stjórnmálaáhugi minn er örugglega að einhverju leyti frá honum. Samt er ég ekki endilega með sömu áherslur og hann, enda er sveitarstjórnarpólitíkin að vissu leyti frábrugðin landspólitíkinni. Mér finnst hann hafa verið góður fjármálaráðherra og haldið vel á spöðunum. Þegar hann var yngri var hann sennilega þekktur fyrir að halda orðunum „Báknið burt“ á lofti og sömu viðhorf eru enn við lýði enda ekki vanþörf á.“
Vinnan hefur forgang
„Pabbi vill að hlutirnir séu í lagi en tekur sjálfan sig ekki of alvarlega. Brosi einhver að hugmyndum hans eða tillögum er hann fljótur að sjá broslegu hliðarnar og gerir þá óspart grín að sjálfum sér.
Ef ég á að gagnrýna eitthvað sem hann hefur gert þá fannst mér að hann hefði átt að taka fæðingarorlof þegar litla systir mín fæddist, en þá var hann ráðherra. Fyrir mér hefði það verið góð fyrirmynd að setja barnið og fjölskylduna í forgang. En þetta fannst honum ekki þá, þar sem það væri svo mikið að gera í vinnunni og mikilvæg verkefni biðu. Mér fannst mikilvægt að hann væri með konu sinni og nýfæddri dóttur en honum fannst mikilvægara að sinna starfinu. Þarna endurspeglast kannski þessi gamaldags viðhorf um að maður nýti ekki tímann nægilega vel nema að vera á kafi í einhverjum vinnutengdum verkefnum. Reyndar verð ég samt að hrósa honum sérstaklega fyrir að vera duglegur að passa börnin fyrir mig en það finnst honum ekkert mál. Sirrý Siska systir mín sem nú býr í Noregi var aðalbarnapía en í hennar fjarveru hefur pabbi alveg fyllt hennar skarð.

Sem stjórnanda heyri ég mjög vel látið af honum. Á tímabili vorum við mikið í Hnífsdal og þá leysti hann stjórnandann í frystihúsinu hjá Jóakim móðurafa mínum af. Ég vann líka í frystihúsinu og þá sagði fólk við mig hvað því þætti gaman að fá hann. „Hann kemur og kjaftar við mann, vill vita hvað maður er að gera og svona,“ sagði það. En svona samskipti þóttu almennt ekki sjálfsögð hjá stjórnendum og voru það kannski ekki í þá daga. Pabbi hefur einlægan áhuga á að kynna sér það sem er að gerast í kringum hann og það hefur örugglega hjálpað honum í stjórnandastarfinu.

Pabbi er búinn að taka ákvörðun um að hætta að vinna í haust og var tilbúinn til þess síðast liðið haust en vinnan varð öllu öðru yfirsterkari þegar áfram var leitað eftir kröftum hans, þó golfið hafi örugglega kitlað mikið. Hann gerir þær kröfur til annarra að þeir standi við sitt og sýnir gott fordæmi með því að takast á við óvænta hluti. Það er ekki til í hans hugsun að ganga frá hálfköruðu verki eða hverfa frá einhverju sem hann telur að sé skylda sín að sinna.“

 

Keppnismaður

 

„Undanfarin sumur höfum við veitt mikið saman. Hann er góður veiðimaður og hefur kennt mér mikið en systir Sigríðar Dúnu kenndi mér samt fyrstu skrefin. Hann skipuleggur veiðiferðina út í æsar, les ána og sendir mig til að skoða veiðistaðina. Hann kann á veðrið, skilur það og náttúruna.
Hann á dagbækur frá því hann var krakki. Stórkostlega fyndnar. Hann og frænka Stella á Auðunarstöðum héldu dagbækur og þau skrifuðu samviskusamlega hvernig veðrið var á hverjum degi. Lengi var talið að hann yrði veðurfræðingur, því skyggni ágætt var hans ær og kýr. Þannig er það líka í veiðiferðunum.

Við spilum bridds saman við sérstakar aðstæður, til dæmis á jólum og á ferðalögum. Þá er mikil keppni og stundum held ég að erfitt sé að vera með honum í liði, því hann rífst mikið í makkernum. Ég held reyndar að það sé mikið í ættinni, því amma og afi voru svona. Mér finnst fyndnara að spila á móti honum. Þá hlæ ég meira en myndi örugglega rífast við hann ef við værum í sama liði. Þegar við spilum vill hann að fólk einbeiti sér að spilamennskunni og kvartar ef maður dirfist að tala við einhvern á meðan. Það á að einbeita sér að því sem verið er að gera hverju sinni.“