Ferðavenjur í borginni

Umhverfis- og samgöngusvið kannaði ferðavenjur reykvíkinga. Könnunin var framkvæmd dagana 5. – 18. nóvember síðastliðin. Tæplega 600 reykvíkingar svöruðu könnuninni. Samskonar könnun var gerð mánaðarmótin nóvember/desember fyrir ári síðan. Gaman er að skoða þessar niðurstöður.

 

Niðurstöður á heildina litið eru þær að svör þeirra sem áttu börn í grunnskóla sýna að langflest grunnskólabörn fara fótgangandi í skólann eða um 67%. Þrátt fyrir þetta fækkar þeim sem fara fótgangandi um rúm 4% og þeim sem fara á einkabíl fjölgar milli ára, voru 26% en eru nú tæp 29% . Þeim sem hjóla fjölgar lítillega, voru 5% en eru nú 5,9%.

 

Hvað fullorðna fólkið varðar þá fara langflestir að jafnaði á einkabíl til vinnu eða skóla eða rúm 74%, þeim fækkar þó aðeins frá fyrra ári þegar sama hlutfall var rúm 77%. Fótgangandi fjölgar (er 10,2% en var 8,7%) og hjólandi fjölgar lítillega eða um 1%.   

 

Í Vesturbænum eru niðurstöður þær að langflest börn eða tæp 62% fara fótgangandi í skólann, árið 2008 var þetta hlutfall 63%. Nú fara hins vegar rúm 7% á hjóli og rúm 6% með strætó eða skólabíl sem hvorugt mældist fyrir ári síðan. Þeim börnum sem fara með einkabíl fækkar, hlutfallið er nú 28% en var rúm 37%. Marktækur munur mælist milli hverfa hvað ferðamátann varðar. Lang hæsta hlutfall grunnskólabarna fer fótgangandi í skólann í Grafarvogi og Kjalarnesi eða 89% á meðan lægsta hlutfall fótgangandi skólabarna er í miðborg og Hlíðum eða 55%.

 

Þegar skoðað er hvernig fólk ferðast að jafnaði til vinnu eða skóla kemur í ljós að nú fara um 62% Vesturbæinga á bíl, en sama hlutfall í fyrra var 67%. Vesturbæingar virðast hafa breytt ferðavenjum sínum til bóta fyrir umhverfið því nú fara rúmlega 10% fleiri en í fyrra fótgangandi í vinnu eða skóla. Hjólanotkun eykst talsvert og er nú 5,5% en var 2,6%.

 

Hér að ofan hefur verið stiklað á stóru um niðurstöður könnunarinnar til upplýsinga og gamans. Kannanir sem þessar skila ýmsum vísbendingum sem eru mikilvæg endurgjöf til þess að gera borgina enn mannvænni og umhverfisvænni. Þá bendi ég áhugasömum á vefsíðu umhverfis- og samgöngusviðs á vef Reykjavíkurborgar sem er uppspretta ýmiss fróðleiks um umhverfismál í borginni.

 

Höfundur:
Áslaug María Friðriksdóttir,
varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í umhverfis- og samgönguráði og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar
.

 

Vesturbæjarblaðið 17. desember 2009