Stundum verður maður orðlaus í borgarstjórn. Eins og í dag.
Eftir að okkur fulltrúum velferðarráðs barst tilkynning um að notendum mötuneytis fyrir aldraðra í Hæðargarði ættu von á því að því yrði lokað vegna sparnaðar með ófyrirséðum alvarlegum afleiðingum fyrir þá ákváðum við Sjálfstæðismenn að taka málið á dagskrá borgarstjórnar.
Ástæðan var sú að gefa skýr skilaboð um að ekki yrði af sumarlokunum í sumar og að skýrt væri að mötuneytisþjónusta við aldraðra væri forgangsþjónusta í huga allrar borgarstjórnar. Mér til mikillar undrunar var meirihlutinn ekki á því að samþykkja þessa tillögu. En það liggur þá ljóst fyrir. Þau sjá ekki þörfina á því að taka af allan vafa um að matarþjónusta sé algjör grunnþjónusta sem ætti að njóta forgangs.
Tillaga okkar Sjálfstæðismanna hljóðaði svona: „Borgarstjórn samþykkir að mötuneytisþjónusta við eldri borgara skerðist ekki vegna sumarlokana nú í sumar.“ En eins og áður sagði gat meirihlutinn ekki tekið undir hana.
Greinargerð fylgdi tillögunni:
„Tilkynning hefur borist öldruðum einstaklingum sem borða í mötuneyti félagsmiðstöðvarinnar í Hæðargarði að mötuneytinu verði lokað í júlí vegna sparnaðar Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að borgarstjórn leggist gegn sumarlokunum á grunnþjónustu sem þessari í ljósi þess að afleiðingarnar geta verið alvarlegar. Aðgangur að mötuneyti tryggir fjölbreytni í matarræði og næringu, stuðlar að sjálfstæði, sjálfsvirðingu og gerir mörgum kleift að búa í eigin húsnæði. Ferðir í mötuneyti gefa mörgum öldruðum ástæðu til að fara út úr húsi, stuðlar að virkni og því að eiga félagslegt samneyti við aðra. Erfitt er fyrir marga að fást við breytingar og það að geta áfram sótt þjónustu í umhverfi sem fólk þekkir veitir fólki öryggi.“
Eftir óheyrilegt stapp og japl í borgarstjórn með einhverjum arfavitlausum útúrsnúningum var ljóst að tillagan yrði ekki samþykkt. Þvílík vitleysa.
Við bókuðum eftirfarandi vegna málsins: „Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar samþykkti ekki tillögu Sjálfstæðisflokksins um að mötuneytisþjónusta við eldri borgara skerðist ekki vegna sumarlokana nú í sumar. Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þótti mjög mikilvægt að borgarstjórn gæfi með slíku samþykki einföld og skýr skilaboð um að þjónusta vegna mötuneyta eldri borgara sé grunnþjónusta sem meðhöndla eigi sem forgangsverkefni. Þetta töldu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að yrði auðsótt.
Svo var hins vegar ekki og fyrirstaðan sú að ekki lægi fyrir hvað verkefnið kostar og að velferðarráð yrði að fjalla nánar um verkefnið. Slík röksemdarfærsla á sér enga stoð enda er það borgarstjórn sem ber endanlega ábyrgð á því að fjármunir renni til þjónustunar og algjörlega er ljóst að ekki yrði um neinar stórar fjárhæðir að ræða. Velferðarráð gæti hins vegar í kjölfar slíkrar samþykktar unnið mun hraðar að því að koma í veg fyrir sumarlokanir því skammur tími er til stefnu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þurfa vart að vekja athygli borgarbúa á því að kostnaðarvitund meirihlutans hefur ekki látið mikið á sér kræla á kjörtímabilinu. Afgreiðsla málsins sýnir að meirihlutinn á í erfiðleikum með að taka skýra afstöðu til þess hvort grunnþjónusta við aldraða eigi að vera í forgangi eða ekki á meðan hvergi var hikað þegar samþykktar voru ferjusiglingar milli Reykjavíkur og Akraness án þess að kostnaðarmat lægi fyrir.“