Drifkraftur nýsköpunar á sér frekar stað hjá einkaaðilum en hinu opinbera. Hins vegar ætti nýsköpun að eiga jafn vel heima í opinberum rekstri. Hugtakið nýsköpun vísar til breytinga. Hægt er að tala um nýsköpun þegar verulegar breytingar verða á afurðum, aðferðum eða skipulagi. Markmiðin með nýsköpun geta verið ólík. Þau geta fjallað um nýjungar og viðbætur en eins sparnað í rekstri og skilvirkni í þjónustu.
Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og leiðir. Starfsumhverfið, viðhorf og menning innan fyrirtækjanna geta þar skipt sköpum. Nauðsynlegt er að rekstrarumhverfi opinberra stofnana gefi rými til nýsköpunar.
Ekki er nægilegt rými fyrir nýsköpun innan opinberrar þjónustu. Þetta á sérstaklega við um velferðar- og menntageirann. Hugsjónafólk sem vill gera tilraunir til að reka öðruvísi þjónustu fer gjarnan út í einkarekstur enda hentar ríkisramminn illa eða alls ekki. Gott dæmi er Hjallastefnan. Þar hefur hugsjónafólk haldið út fyrir rammann til að reka þjónustu á annan hátt en hefðbundið er. Mörg dæmi eru um að einkaaðilar, sjálfseignarstofnanir eða samtök taki að sér að sjá um þjónustu á hendi ríkisins.
Nefna má Sóltún sem Öldungur hf. rekur og sinnir þjónustu við aldraða, en þar hefur mikið frumkvöðlastarf verið unnið við að innleiða nýja nálgun í þjónustu. Heilbrigðisþjónustan í Salahverfi í Kópavogi hefur einnig verið rekin af einkaaðila í nokkur ár með sóma og fyrirtækið Karitas sinnir sérhæfðri heimaþjónustu fyrir langveika með því markmiði að efla slíka þjónustu og styrkja.
Ákveðin stífni hefur einkennt viðbrögð við þessari þróun. Nú er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að bæði notendur og stjórnendur kalla á breytingar. Hagsmunasamtök fatlaðra eru á einu máli um að efla beri vald notenda. Notendur eigi að stjórna hvernig þjónusta er veitt í stað þess að opinberir starfsmenn hafi þau völd í hendi sér. Aldraðir hafa látið í sér heyra og telja á sér brotið af því að þeir hafa ekki tækifæri til að velja sjálfir um það hvernig, hvenær og hver veitir þeim þjónustu. Athyglisvert var einnig að sjá í fréttum um daginn að heimilislæknar telja að starfsumhverfið hér á landi sé ekki nógu aðlaðandi, of stíft og henti þeim illa. Þeir komi flestir frá Norðurlöndunum, þar sem þeir hafi mun meiri tækifæri til að hafa áhrif á eigið starfsumhverfi. Því sé hætta á flótta úr greininni. Allt í kringum okkur spretta upp vísbendingar um að það kerfi sem við nú rekum verði að taka meiri breytingum.
Aukinn sveigjanleiki í opinberum rekstri er nauðsynlegur og aðkallandi. Vald þarf að færast til stjórnenda og notenda og stífir rammar þurfa að heyra sögunni til. Höldum nýsköpuninni ekki í skefjum. Gefum henni aukinn kraft.