Rafrænt lýðræði á opinberum vefjum

 „Undanfarin misseri hefur verið mikil þróun hvað varðar rafrænt lýðræði…“

 

ÚTTEKT á öllum opinberum vefjum á Íslandi var framkvæmd í þriðja sinn á vegum forsætisráðuneytisins og niðurstöður lágu fyrir í desember 2009. Áður var úttektin framkvæmd árin 2005 og 2007 og ber heitið Hvað er spunnið í opinbera vefi? Tilgangur úttektarinnar er að greina stöðu rafrænnar þjónustu á vefjum hins opinbera í landinu. Úttektinni er ætlað að veita heildstæða yfirsýn yfir þá rafrænu þjónustu sem er í boði á vefjum hins opinbera og gera opinberum aðilum grein fyrir stöðu sinni í samanburði við aðra. Markmið úttektarinnar er að meta hvernig vefir hins opinbera standa og styðja við þróun rafrænnar þjónustu í samræmi við það sem sett var fram í stefnuskjali ríkisstjórnarinnar Netríkið Ísland 2008-2012. 
 
Skoðaðir voru ýmsir þættir eins og áður s.s. rafræn þjónusta, innihald vefjanna, nytsemi og aðgengi. Þá var einnig eins og áður spurt um rafrænt lýðræði en nú á ítarlegri hátt, hvort og hvaða aðferðir væri verið að nota sem féllu undir rafrænt lýðræði. Í könnuninni var einnig spurt um nýja þætti svo sem eins og hvort í notkun sé sérstakt vefumsýslukerfi, hvort sérstakur vefur væri fyrir farsíma og minni tölvur, notkun á opnum eða frjálsum hugbúnaði og fleira sem fróðlegt er að skoða.
 
Í þessari grein langar mig að gera grein fyrir niðurstöðum um rafrænt lýðræði. Rafrænt lýðræði eykst verulega til hins betra og mælist nú til staðar hjá 19% vefja en var 10% árið 2007. Árið 2007 var kannað hvernig svarendur könnunarinnar mátu það hvort rafrænt lýðræði ætti að vera til staðar á vefnum þeirra eða ekki. Niðurstaðan þá var að 23% svarenda töldu að svo ætti að vera en nú telja 43% að svo ætti að vera. Þetta bendir til þess að mikil jákvæð viðhorfsbreyting hafi orðið á tímabilinu 2007-2009.
 
En hvað er rafrænt lýðræði í hnotskurn og hvernig var það mælt? Undanfarin misseri hefur verið mikil þróun hvað varðar rafrænt lýðræði og ýmsar útfærsluleiðir hafa verið nýttar, allt frá einföldum tölvupóstsamskiptum yfir í rafrænar kosningar. Ljóst er að miklar breytingar eiga eftir að verða á þessum vettvangi og hugarfarsbreytingar bæði innan stjórnsýslunnar og meðal notanda.
 
Rafrænt lýðræði felst í því að notendum er boðið að tjá sig um málefni stofnunarinnar sem sérstaklega er í umræðunni hverju sinni, til dæmis lagafrumvörp, deiliskipulag eða aðalskipulag. Einnig að notendur geti á rafrænan hátt tekið þátt í fundarhöldum eða atburðum sem haldnir eru á vegum stofnunarinnar og lagt sitt til málanna. Svarað var fyrir hverja stofnun eða sveitarfélag og niðurstöður má sjá á mynd 1.
 
.

.
 
Eins og við var að búast nýta flestar stofnanir tölvupóst til að taka við upplýsingum frá notendum í gegnum vefinn eða um 76% og um 38% bjóða upp á sérstakt fyrirspurnarform. Hlutfallstölurnar miðast við alla vefi sem svöruðu könnuninni eða 250. Um 25% stofnana bjóða upp á rafrænt fréttabréf og um 25% RSS miðlun. Færri bjóða hins vegar upp á aðrar leiðir, 7% eru með netspjall og 7% með rafrænar skoðanakannanir og rafrænar árangurskannanir. Aðeins 6% nýta sér blogg og umræður sem þó hefur almennt aukist til muna.
 
.

.

Vefur 2.0 (Web 2.0)

 
 
Einnig var bætt við spurningum um hvort notuð sé tækni sem kennd hefur verið við Vef. 2.0. (Web. 2.0) á vefjunum sem segir til um hvort horfið hafi verið frá því að þeir séu hefðbundnar statískar vefsíður yfir í virkt, breytilegt og samnýtanlegt efni sem oftar en ekki krefst þátttöku notandans, s.s. félagsnet, notendadrifið efni og samtengingar eða vefþjónustur. 
 
Þróun hefur verið gríðarlega ör undanfarin ár og eru margar stofnanir farnar að nýta sér þessar leiðir til þess að koma skilaboðum á framfæri og auðvelda notendum að fylgjast með. Mynd 2 sýnir yfirlit yfir það sem verið er að nota.
 
.

.
 
Af þeim lausnum sem nefndar voru, var algengast að boðið væri upp á RSS. Þá er bæði átt við miðlun upplýsinga frá stofnun til notenda en eins miðlun upplýsinga frá notendum um vef viðkomandi stofnunar. Um 18% svarenda nota RSS til miðlunar upplýsinga. Þær stofnanir sem helst nýta RSS eru ríkisstofnanir (25), sveitarfélög (9) og ráðuneytin (6).
 
Ýmsar aðrar fróðlegar niðurstöður koma fram í niðurstöðum úttektarinnar og ég hvet þá sem hafa áhuga að lesa þær. Niðurstöður eru aðgengilegar á vefnum (www.ut.is).

Höfundur er framkvæmdastjóri Sjá ehf.

  

Morgunblaðið, laugardaginn 9. janúar, 2010 – Aðsent efni