Menningarpólitíkin

Menningarpólitík er orð sem gaman er að velta fyrir sér – hvers konar pólitík er það og hvaða sjónarmið svífa þar yfir vötnum. Eftirfarandi eru nokkur atriði sem að mínu mati skipta verulegu máli.
 
Í fyrsta lagi hlýtur hér eins og í annarri pólitík að vera tekist á um afskipti hins opinbera og hvaða áhrif þau hafa. Mikilvægt er að gæta þess að afskiptin verði aldrei svo mikil að það hafi neikvæð áhrif á frumkvæði listamannanna sjálfra og þeirra sem við menningartengda starfsmenni starfa. Frumkvæðið er nefnilega eitt af því mikilvægasta sem við eigum og í því er framtíð okkar fólgin.
 
Í öðru lagi er mikilvægt að hugsa menninguna ekki sem afmarkað svið sem sinnt er í ákveðnum ramma í ákveðnu húsi út í bæ heldur sem grunnsjónarmið sem horfa þarf til innan allra fagsviða og stofnana borgarinnar.
 
Menningarpólitíkin fjallar líka um hvernig við mótum umhverfi okkar, drögum fram sögu og menningu, sýnum þann frumleika sem hér býr. Þetta gerist ekki í nokkrum smáverkefnum en getur hugsanlega gerst ef við náum að samstilla viðhorf okkar til þess hvernig borg við viljum búa í. Við eigum að gefa okkur tíma til að skoða hvernig bæta má það sem fyrir er út frá menningarlegum sjónarmiðum, og við höfum mörg dæmi þar sem vel hefur tekist til nú þegar. Við getum hins vegar aldrei gert þetta án þess að ná samstöðu um mikilvægi verkefnanna og að við veltum fyrir okkur tækifærum til að gera betur. Grunnþjónusta lýtur að því að fullnægja frumþörfunum svo fjölskyldur í borginni eigi í sig og á og að lögbundinni þjónustu sé sinnt. Menning er lykilatriði til að bæta lífsgæði. Menning snýr að uppeldi, fræðslu, menntun, verndun, skipulagi, umhverfi, uppbyggingu og framkvæmdum.
 
Í þriðja lagi þarf að fjalla um ferðamálin. Menning og ferðamál eru náskyld fyrirbæri. Með menningartengdum verkefnum er oftast verið að sinna ferðamálum að einhverju leyti líka. Verndun minja og viðhald húsa, listviðburðir, skipulag og það að skipulag umhverfisins dragi fram einkenni og sýni að við berum virðingu fyrir menningu okkar og sögu eru verkefni sem eru til þess fallin að auka áhuga ferðamanna á landinu. Menningarpólitík fjallar líka um að skapa lífvænleg skilyrði fyrir verslun og þjónustu, laða að fólk að þeim svæðum sem gott er að heimsækja og í felast einhver menningarleg gildi. Allt loðir þetta saman.
 
Í fjórða lagi langar mig að nefna að mjög mikilvægt er að beita okkur fyrir því að eiga aðgengi að betri upplýsingum um hagræn áhrif menningarstarfsemi en nú gengur og gerist. Upplýsingar og tölulegar samantektir um ferðamál hafa verulega verið bættar nú sjá menn mun greinilegar hvernig útgjöld hins opinbera skila sér út í atvinnulífið svo sem í gistinóttum og aukningu í verslun með tollfrjálsar vörur og slíkt hið sama þarf að gera í menningarmálum – hvaða áhrif hafa listasöfnin, viðburðirnir, styrkirnir okkar? Þá fyrst komumst við nær svarinu um það hvort menningarstarfsemi er fjárfesting eða einungis útgjöld, umræða sem of lengi hefur dregið úr gildi menningarmála. Þá eigum við einnig að gera það að okkar hlutverki að fylgjast með atvinnuþróun í listheiminum og reyna að greina betur hvernig atvinnugreinin þróast og taka upplýstari ákvarðanir.