Áslaug les um múmínálfa, ást og uppgjör

Áslaug Friðriksdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leyfði Miðjunni að forvitnast um bækurnar sem hún er að lesa um þessar mundir:

 

Í bókastaflanum mínum eru nú Góði elskhuginn eftir Steinunni Sigurðardóttur, Heim til míns hjarta, ilmskýrsla um árstíð á hæli eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, Spor eftir Lilju Sigurðardóttur, Moominpappa at Sea eftir Tove Jansson og Umsátrið eftir Styrmi Gunnarsson.


godielskhuginn

 

Góði elskhuginn – Steinunn Sigurðardóttir
Steinunn er lipur höfundur og bækur hennar hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Góði elskhuginn lýsir ævi manns sem hefur aldrei gleymt æskuástinni. Hann hefur í gegnum tíðina átt fjölda ástkvenna sem hann notar til að fylla upp í tómarúm þess að fá ekki að vera með þeirri einu réttu. Sagan er full af léttum húmor sem einkennir verk Steinunnar. Í gegnum þetta koma sálfræðilegar pælingar um samband móður og sonar, en aðalpersónan er alinn upp af einstæðri móður og faðirinn víðsfjarri.

 

 

Spennusagan Spor

 

Spor – Lilja

Spor er krimmi þar sem sögusviðið er Reykjavík og starfsemi AA samtakanna fléttast söguþræðinum á sniðugan hátt. Kaflar bókarinnar bera sömu heiti og sporin tólf. AA-samtökin fá nýtt hlutverk og verða skuggalegur vettvangur þar sem hitt og þetta heldur sig. Eins og krimma ber er bókin spennandi,  í henni er bæði ástarsaga, morð og aðalpersónan í basli með sitt einkalíf. Það sem einkennir bókina er að hún rennur vel og heldur manni við efnið, sögusviðið er nálægt og persónulegt en um leið trúverðugt. Ég las þessa bók eftir vinnu einn dag í desember og hafði gaman af.

 

heimtilminshjarta

 

Heim til míns hjarta – Oddný Ævarsdóttir
Bókin fjallar um konu sem er útbrunnin vegna leitar sinnar að ástinni og leitar sér hjálpar á hæli. Á hælinu eru í boði alls kyns meðferðir og þar rifjar hún upp ýmis ástar- og tilfinningatilvik í lífi sínu. Pælingarnar eru frábærlega skemmtilegar og ég hef verulega gaman af því að lesa þessa bók og tími varla að klára hana, hver kafli fær sinn tíma.

 

muminpabba

 

Múmínpabbi á sjó (Muminpappa at Sea) – Tove Jansson
Að lesa múmínálfana á ensku er svoldið sérstakt, ég sakna íslensku nafnanna. En múmínbækurnar standa alltaf fyrir sínu, hressa mann kæta og bæta. Ég les múmínálfana fyrir börnin mín og bækurnar hafa fylgt okkur í gegnum árin, öllum finnst þær skemmtilegar.

 

umsatrid forsida

 

Umsátrið – Styrmir Gunnarsson
Í staflanum er bók Styrmis Gunnarssonar Umsátrið, fall Íslands og endurreisn. Ég er rétt að byrja á henni en það sem komið er lofar góðu. Styrmir býr auðvitað yfir einstakri reynslu og fróðlegt að fara með honum í gegnum ástæður bankahrunsins. Þetta verður áramótabókin

 

http://midjan.is/2009/12/31/aslaug/