Vegna prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík

Ég hef ákveðið að sækjast eftir 4. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík og af því tilefni tók ég saman nokkur orð hér á blogginu.

http://aslaugfridriks.blog.is/blog/aslaugfridriks/entry/997311/?fb=1

 

Ég er búin að vera varaborgarfulltrúi undanfarin 4 ár og hef setið í nefndum og ráðum s.s. leikskólaráði, umhverfis- og samgönguráði. Þegar Hanna Birna tók við sem leiðtogi okkar Sjálfstæðismanna í Reykjavík sumarið 2008 bað hún mig um að taka að mér formennsku í menningar – og ferðamálaráði sem ég gerði og hef sinnt því síðan. Ég var kjörin í miðstjórn fyrst á landsfundi 2007 og svo aftur á landsfundi 2009, ég var kjörin formaður Hvatar félags sjálfstæðiskvenna árið 2006 og er það enn. Auk þess hef ég tekið þátt í vinnu málefnanefnda innan flokksins.

 

Ég er með masterspróf í vinnusálfræði frá University of Hertfordshire 1995. Eftir námið hafði ég ýmsar hugmyndir um atvinnumiðlun og upplýsingatækni og fór til fundar við félagsmálaráðherra að kynna honum hugmynd sem ég og fleiri unnum að. Í kjölfarið var ég beðin að taka að mér sérstakt verkefni fyrir ráðuneytið sem fólst í að meta þjónustu fyrir fatlaða vegna fyrirhugaðs flutnings málaflokksins til sveitarfélaganna. Næstu ár á eftir starfaði ég hjá félagsmálaráðuneytinu og vann að málefnum fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Upplýsingatæknin og möguleikar hennar blunduðu í mér og hugmyndirnar létu mig ekki í friði heldur ýttu mér út á einkamarkaðinn. Ég fór að vinna við vefsíðugerð og innri kerfi fyrir fyrirtæki, þetta var nýr geiri og allt að gerast þar þrátt fyrir netbólusprenginguna miklu en var þó enn mjög vanþróaður. Eftir afar áhugaverðan tíma í því starfi var kominn tími til að taka næsta skref og árið 2001 stofnaði ég fyrirtækið Sjá ehf. sem hefur verið leiðandi í rannsóknum á notendahegðun sem ég tel vera það mikilvægasta og nauðsynlegasta að skilja og byggja á, ef búa á til góðar vefsíður. Í fyrra starfi mínu sá ég hvernig sama módelinu var beitt á vefi ólíkra fyrirtækja óháð starfsemi og markhópum og þarna mátti bæta um betur og það gerði Sjá. Fyrirtækið gengur vel, þótt það sé ekki stórgróðafyrirtæki, við höfum mest verið 10 manns en annars virkar félagið eins og harmonikka og þenst út og dregst saman í takt við verkefnastöðuna. Að stofna sprotafyrirtæki, koma því á legg og sjá árangurinn er mér afar mikilvægt og mótar eflaust hvern þann sem fer í gegnum slíka vinnu. Algjör straumhvörf hafa orðið í því hvernig t.d. hvernig vefgeirinn hefur beitt sér í aðgengismálum að vefjum til hins betra, þarna tel ég skipta máli okkar áralanga áróður og kennslu hjá Sjá ehf. um aðgengi að upplýsingasamfélaginu.

 

Að  reka eigið fyrirtæki kennir manni margt. Peningarnir vaxa ekki á trjánum. Maður þarf að leggja sig fram við að bæta við þann heim sem maður býr í til að auka verðmæti hans. Lykilatriði er að fólk leggi sig fram. Ef fólk hættir að leggja sig fram hætta tekjur að koma inn og allir tapa. Lítið fyrirtæki er á þennan hátt ekki ósvipað því sem kerfi hins opinbera fást við en það gefur engin grið, þú uppskerð eins og til er sáð. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf haldið frumkvæðinu og dugnaðinum á lofti og viljum að þeir sem leggja sig fram fá eitthvað fyrir sinn snúð. Við berum ábyrgð á því að kerfið sem við stýrum stuðli að því að fólk leggi sig fram.  Margar þjóðir hafa setið uppi með ógnarstór vandamál vegna kerfisvilla sem látnar hafa verið óhreyfðar og þær hafa beinlínis viðhaldið vandanum langt umfram nauðsyn s.s. gert stóra hópa fólks langtíma atvinnulausa eða ekki fundið farveg fyrir krafta hvers og eins. Á okkar tímum er algjörlega nauðsynlegt að við gætum þess að þetta verði ekki landlægt hér.

 

Hin ósýnilegu verðmæti, gleðin, lífshamingjan og heilsan eru viðmið sem við eigum að nota í meira mæli. Hvernig innbyrðum við það í okkar pólitíska kerfi. Þetta eru í raun hlutir sem skipta öllu máli en okkur hefur stundum gengið illa að verðmerkja. Þetta þurfum við að ná utan um, við eigum grunninn og stefnuna og í borgarmálunum getum við einbeitt okkur af meiri krafti en verið hefur. Í mótun umhverfis þarf að taka tillit til þessara þátta, listir og menning gefa verulega af sér í þessa veru, fjölbreyttir kennsluhættir gera það líka, við eigum að vinna mun meira með ólíkar hugmyndir. Leyfa þarf aðferðum og hugmyndum að flæða á sveigjanlegan hátt í kerfinu.