Menning og mælingar

Við deilum því flest að menningin er okkur mikilvæg, jafnvel þó að við útskýrum það með ólíkum hætti. Hugtakið menning er líka afar opið og breitt og getur innihaldið flest sem okkur dettur í hug. Menning tengist umhverfi okkar, sögu og hegðun fyrr og nú. Menning er þar af leiðandi einhvers konar sameiginleg meðvitund okkar um að við séum af sama uppruna eða í sama mengi og verður ákveðinn samnefnari milli fólks. Menningin er því forsenda samstöðunnar. Á erfiðum tímum eins og nú ganga í garð er samstaðan afar mikilvæg.
Menning hefur ekki verið hagfræðingum hugleikin. Leitun er að upplýsingum og tölum um áhrif menningarstarfsemi á samfélagið. Menningargeirinn hefur varla verið álitinn hluti af atvinnulífinu. Erfitt getur verið að skilja hvaða áhrif menningarviðburðir eða starfsemi leiðir af sér. Flestir skilja að þegar viðburðir draga að erlenda ferðamenn hljóta þeir að skila einhverju fjármagni inn í samfélagið með gjaldeyri í verslun og gistinóttum. Hvergi er þó slíkum viðburðum gerð nægilega góð skil hvað hagræn áhrif og tölulegar upplýsingar varðar.
Í upplýsingasamfélagi eins og okkar er allt mögulegt mælt. Alls kyns lykiltölur og mælingar. Allt frá því að vera hlutbundnar talningar í huglægar spár. Helsta viðfangsefnið er auðvitað að sjá í hverju skal fjárfesta. Oft hefur sýnin á það verið of þröng, aðeins er horft í bókhald þess sem fjárfestir í ákveðnu verkefni og skili fjárfestingin sér ekki aftur inn í bókhald sama fjárfestis þykir verkefnið ekki verðugt. Menningarverkefni hafa oft verið talin til góðgerðarstarfsemi sem gott er að fjárfesta í til að halda uppi jákvæðri ímynd og orðspori. Í minni mæli hefur verið horft til menningarverkefna sem lausna eða aðgerða sem gætu haft veruleg áhrif á efnahags- eða atvinnulífið.

Menningar- og ferðamálaráð hefur nú ákveðið að stíga upphafsskrefið til að reyna að bæta úr ofangreindu. Stofnaður hefur verið starfshópur sem hefur það hlutverk að koma með tillögur að úrbótum svo borgin fái betri yfirsýn yfir þau hagrænu áhrif sem menningarstarfsemi í Reykjavík leiðir af sér. Starfshópurinn mun kalla til sín ýmsa aðila á meðan á vinnunni stendur. Þeim sem telja sig hafa góðar hugmyndir er hér með bent á að hafa samband við undirritaða.

 

Áslaug María Friðriksdóttir