Hvar er umferðarstjórnunin?

Það er eins og umferðarstjórnun sé ekki til í Reykjavík. Ákvarðanir um framkvæmdir virðast teknar algjörlega óháð því hvenær umferðarálag er mest. Í mörgum borgum er til eitthvað sem heitir umferðarstjórnunarstöð sem vinnur að því að kortleggja og stýra umferðinni til að bæta umferðarflæði en þetta virðist algjörlega vanta hér í borginni. Reyndar er það ekki svo skrítið þegar haft er í huga að aðgerðarleysi í umferðarmálum er eitt meginverkefni núverandi borgarstjórnar. 

Ekkert gert til að veita upplýsingar á aðgengilegan hátt til þeirra sem ferðast um í borginni. Nú þegar tæknin ætti einmitt að leyfa slíkt á einfaldari hátt en aldrei fyrr virðist lítill áhugi á því. Til eru upplýsingar sem mætti nota til þess til dæmis þær upplýsingar sem Google safnar. Gera ætti íbúum kleift að sjá fyrir hversu lengi þeir verða á leiðinni í gegnum borgina eftir því hvenær dags er farið svo að þeir sem hafi tækifæri til geti tekið ákvörðun um að fara fyrr eða seinna en þegar mesta álagið er.

Í síðustu viku lögðum við Sjálfstæðismenn í borginni fram tillögu um slíkar úrbætur og bíður hún afgreiðslu hjá umhverfis- og samgönguráði. Tillagan fjallar um að leggja til við umhverfis – og skipulagsráð að borgarbúum verði gert kleift að skoða lifandi upplýsingar um umferð á helstu stofnleiðum borgarinnar á vef borgarinnar eða í sérstöku smáforriti. Ferðatími á annatíma í borginni er gríðarlega misjafn og getur jafnvel tekið hátt í klukkutíma að fara frá Grafarvogi niður í miðbæ á mesta álagstíma. Sama kerfi getur skilað upplýsingum um tafir vegna viðgerða eða lokana. Mikilvægt er að aðstoða fólk við að sjá þessar upplýsingar á aðgengilegan hátt svo það í auknum mæli taki ákvarðanir um að forðast mesta álagstímann og nota ætti öll tiltæk ráð til þess.

bílaumferð