Menning, mannréttindi og jöfn tækifæri

Áfram held ég að setja hér inn drög að stefnumótun Sjálfstæðisflokksins sem lögð verður fyrir landsfund nú seinna í febrúar. Þar munu að sjálfsögðu kom fram fjölmargar breytingartillögur sem kosið verður um.  Þessi kafli er hluti af ályktun allsherjar og menntamálanefnd flokksins. 

Menning
Mikilvægt er að halda áfram að hlúa að lista- og menningarlífi þjóðarinnar og standa vörð um menningarstofnanir, þar sem mikil þekking og reynsla býr. Með kynningu íslenskrar menningar má gefa jákvæða mynd af landi og þjóð og í henni geta falist fjölbreytileg verðmæti.

Opinber stuðningur við lista- og menningarstarfsemi, eins og aðrar atvinnugreinar, sé ævinlega gegnsær og byggður á traustum faglegum og fjárhagslegum forsendum. Lög um listamannalaun verði endurskoðuð, m.a. með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði. Heiðurslistamannalaun verði lögð niður.

Fjölmiðlar eru snar þáttur í daglegu lífi fólks. Sjálfstæði þeirra og trúverðugleiki er mikilvægur til að tryggja lýðræðislega umræðu. Mikilvægt er að lög um fjölmiðla verði endurskoðuð og  settar verði strangari reglur um gegnsæi varðandi eignarhald þeirra.  Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og RÚV verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna. Stefna skal að því að íslensk dagskrárgerð standi jafnfætis dagskrárgerð á Norðurlöndum. Menningararfur sá sem RÚV hefur umsjón með verði gerður aðgengilegur almenningi.

Mannréttindi
Mikilvægt er að draga úr og sporna gegn hvers kyns ofbeldi. Gegna þar forvarnir miklu máli. Jafnframt þarf að horfa sérstaklega til heimilisofbeldis, kynbundins ofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Styðja þarf félagasamtök og stofnanir sem sinna þessum málaflokki.

Sjálfstæðisflokkurinn vill búa vel að innflytjendum og sjá til þess að þeir njóti jafnra tækifæra á við aðra þjóðfélagsþegna og gera þeim þannig kleift að verða hluti að samfélaginu. Mikilvægt er að sjá til þess að innflytjendur verði ekki einangraður minnihluti samfélagsins, en hægt er að fyrirbyggja slíkt með markvissum aðgerðum. Stefnumótun stjórnvalda, upplýsingagjöf og fræðsla leika þar lykilhlutverk. Mikilvægt er að hvetja innflytjendur til að læra íslensku. Vald á tungumálinu og þekking á grunnstoðum þjóðfélagsins er mikilvægur þáttur í aðlögun að íslensku samfélagi.

Jöfn tækifæri kvenna og karla
Landsfundur vill tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Laun eiga að endurspegla hæfni, ábyrgð, vinnuframlag og frammistöðu launþega en ekki kyn. Þrátt fyrir ný jafnréttislög hefur óútskýrður launamunur karla og kvenna farið vaxandi á líðandi kjörtímabili. Á þessum vettvangi þurfa ríki og sveitarfélög að fara á undan með góðu fordæmi og tryggja að hvergi í hinu opinbera kerfi líðist óútskýrður launamunur kynjanna.