Byggjum á sjálfsvirðingu og sjálfstæði

Fyrir rúmum 100 árum voru viðhorfin til þeirrar félagsþjónustu sem við þekkjum í dag að mótast í Reykjavík sem annars staðar. Konur fóru að kveðja sér hljóðs og standa saman að því að aðstoða þá sem ekki gátu björg sér veitt. Ein þessara kvenna var Ólafía Jóhannsdóttir, en í síðasta mánuði voru liðin 150 frá fæðingu hennar. Ólafía var stórmerk kona og ein að forvígiskonum íslenskrar kvennabaráttu. Síðar var hún vegna mildi sinnar og hjálparstarfa þekkt í Noregi og er þar í hávegum höfð.

Skilaboð Ólafíu
Margt af því sem mótaðist þarna er enn í fullu gildi. Greinar Ólafíu eru áhugaverðar yfirlestrar. Í kvennablaðinu Framsókn árið 1899 skrifar Ólafía grein sem ber heitið „Góðgerðasemi“ og lýsir vel um hvers konar starf var að ræða. Í greininni kemur eftirfarandi fram:

„Allir sem einhvern tíma hafa reynt það að vera upp á aðra komnir, vita hvað það er hart aðgöngu. Og allir, sem veitt hafa lífinu nokkra eptirtekt, vita líka, að sá sem ekki er efnalega sjálfbjarga, missir optast nær smámsaman sjálfstæði sitt og siðferðislegt manngildi. Það er því afar mikill vandi að gefa öðrum, því það þarf að taka tillit til allra þarfa þeirra, ekki síður andlegra en efnalegra.“

Og síðar í greininni: „Engin hjálp er eins mikils virði eins og sú, sem gerir manninn færan um að vinna sjálfur fyrir nauðþurftum sínum.“

Hvetjum til sjálfshjálpar
Sterkt kemur fram hversu mikilvægt það er að veita hjálpina á þann hátt að það byggi fólki upp og stuðli að sjálfsvirðingu og sjálfstæði. Ekki er nóg unnið í þessa veru í Reykjavík þegar horft er til þeirra sem hafa fulla getu til þess að taka að sér verkefni. Í Reykjavík hefur fjárhagsaðstoð miðað við að greiða út bætur en skyldur á móti hins vegar litlar sem engar. Hvers konar skilaboð eru það? Að ekki sé þörf á þátttöku viðkomandi eða að samfélagið þurfi ekki lengur á viðkomandi að halda? Slíkt getur ekki verið til þess fallið að viðhalda sjálfsvirðingu. Hér verður að gera betur. Of mikil áhersla hefur verið lögð á dýrar og flóknar lausnir í stað þess að nýta til dæmis frumkvæði fólksins sjálfs. Ekki má vera erfiðara að vera á vinnumarkaði en þiggja fjárhagsaðstoð. Ef betra er að sitja heima en að taka starf á lægstu launum eins og vísbendingar eru um er ekki verið að hjálpa fólki á uppbyggilegan hátt.

Frumkvæði og sveigjanlegar lausnir
Allt frá upphafi kjörtímabilsins höfum við Sjálfstæðismenn gagnrýnt þetta viðhorf meirihlutans harðlega. Framan af var talið að Reykjavíkurborg ætti ekki að vera vinnumiðlun og því var seint brugðist við. Svo var farið af stað á skjaldbökuhraða að byggja upp afar flókið samstarf við ríkið um að skapa ný störf. Náðst hefur árangur, en of lítill og of seint. Lausnirnar sem vantar verða að vera miklu sveigjanlegri, unnar á forsendum þeirra sem eiga að taka þátt. Dýr yfirbygging er ekki svarið heldur þarf að ýta undir frumkvæði til að skapa og taka að sér verkefni. Stefna okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík er skýr. Byggjum á sjálfsvirðingu og sjálfstæði.

Breytt nálgun – betri þjónusta

Vinstri menn á Íslandi eru leynt og ljóst á móti því að gera sjálfstæðum aðilum kleift að taka að sér rekstur grunnþjónustu. Rök þeirra eru m.a. þau að slíkt fyrirkomulag leiði til mismunandi þjónustu, þar sem hinir efnameiri fái meira en þeir efnaminni. Þrátt fyrir þau mótrök, að þannig fái allir betri þjónustu, er lítil hreyfing á málinu.

Staðan í Reykjavík er þessi: Mikill skortur er á þjónustu fyrir fatlaða, aldraða og aðra sem þurfa á aðstoð að halda. Þrátt fyrir að það sé lögbundin skylda sveitarfélagsins að veita þjónustuna eru biðlistar því miður staðreynd. Þjónustuþörf í Reykjavík vex mjög hratt. Hér búa margir sem þurfa á hjálp að halda og öldruðum á eftir að fjölga gríðarlega á næstu áratugum. Því er ljóst að við verðum að skoða vandlega hvernig við nálgumst það verkefni að veita mannsæmandi lögbundna grunnþjónustu.

Hagsmunasamtök eru gagnrýnin á viðhorf borgarinnar eins og þau birtast í reglum um stuðningsþjónustu. Gagnrýnin felst í því að reglurnar samrýmist ekki nútíma hugmyndafræði og verulega skorti á að lögð sé áhersla á sjálfstætt líf og sjálfsákvörðunarrétt fólks. Enn sé leitað í hópalausnir, stofnanahugsun sé ríkjandi, miðstýring óþarflega mikil og áhersla á jafnræði komi í veg fyrir einstaklingsmiðaða þjónustu.

Góð reynsla
Góð reynsla er af sjálfstæðum rekstri grunnþjónustu annars staðar í heiminum, til dæmis í Svíþjóð. Þar þótti mikil ástæða til þess að leyfa fólki að njóta þeirra kosta sem sjálfstæðari og sveigjanlegri þjónustueiningar hafa upp á að bjóða. Einkarekstri í grunnþjónustu hefur verið tekið fagnandi bæði í skóla- og heilbrigðiskerfinu. Fé fylgir þörf og þeir sem reka þjónustueiningar geta ekki valið sér viðskiptavini heldur velur viðskiptavinurinn þjónustuaðilann. Þannig má koma í veg fyrir að þeim efnameiri standi annað til boða en þeim efnaminni hvað grunnþjónustuna varðar. Með einmitt þessari breyttu nálgun gátu Svíar bætt afköst í heilbrigðiskerfinu og breytt nálgun í skólakerfinu skilaði betri námsárangri nemenda.

Í þessari umræðu ber mikið á því að hræðsla er við að láta „hvern sem er“ reka þjónustu. Með skýrum kröfum og skilyrðum sem rekstraraðilar, hverjir sem það eru, verða að uppfylla og fylgja má tryggja gæði. Mjög mikilvægt er að skilgreina þessar kröfur. Að sama skapi verðum við að gera okkur grein fyrir því að þessi gæði eru engan veginn tryggð þó að opinberir aðilar sjái um þjónustuna eins og nú er og svo margir vilja halda.

Eitt stærsta verkefni Reykjavíkurborgar næstu ár er að takast á við breytingar á samfélaginu. Því miður hefur meirihlutinn í Reykjavík verið áhugalaus um að taka rekstur og útfærslu grunnþjónustunnar í Reykjavík til gagngerrar skoðunar. Engu að síður eru mörg teikn um að slíkt sé óhjákvæmilegt til þess að hægt verði að veita lögbundna þjónustu í næstu framtíð og mæta fyrirsjáanlegri aukinni þörf. Í því skyni er full ástæða til að líta til velferðarsamfélaganna annars staðar á Norðurlöndum. Við eigum að nýta það sem vel hefur gefist til þess að bæta þjónustuna en láta ekki rakalausar kreddur standa í vegi fyrir eðlilegum og nauðsynlegum umbótum.

Er arðsemi af hinu illa?

Það vekur furðu hve vinstra fólki er illa við einkarekstur í almannaþjónustu. Því er beinlínis haldið fram, að einkarekstur í grunnþjónustu sé hættulegur, því að hann þurfi að skila eðlilegum tekjuafgangi. Að mati þessa fólks hlýtur arðsemiskrafa í slíkum rekstri að skila sér í verri þjónustu.

Nýlega hneykslaðist formaður Vinstri grænna á því að enn þrjóskuðust menn við, og vilji fjölga þjónustusamningum við einkaaðila. Eða eins og hún orðar það: » … að færa æ stærri hluta af sameigninni – skóla, heilbrigðisstofnanir, veitukerfi – undir lögmál markaðarins með þjónustusamningum við einkaaðila sem eiga að græða á öllu en bera takmarkaða ábyrgð«.

Ástæða er til að staldra við slíka sleggjudóma. Gefið er í skyn að þeir, sem reka sjálfstæð fyrirtæki í opinberri þjónustu, hafi það eitt að markmiði að græða með því að kreista sem mest út úr rekstrinum á kostnað þeirra, sem njóta eiga þjónustunnar. Þessi ádeila formannsins er ekki síst sérkennileg í ljósi þess að í stjórnartíð Vinstri grænna var ekki dregið úr einkarekstri til dæmis í heilbrigðiskerfinu enda eru einkareknar einingar oft mjög hagkvæmar og skila betri árangri en þær, sem reknar eru af opinberum aðilum.

Það er athyglisvert að tala um »takmarkaða ábyrgð«þegar flestum er ljóst, að það er í raun aðstöðumunurinn milli hins opinbera og sjálfstæðra aðila sem veldur því að viðbrögð sjálfstæðra aðila við áföllum geta aldrei orðið eins víðtæk og viðbrögð hins opinbera gagnvart eigin einingum eins og staðan er í dag. Ástæðan er einmitt sú að vinstri menn streitast gegn því að veita sjálfstæðum aðilum nægan stuðning í þessu samhengi. Ef jafnt væri gefið mundi miðlægur stuðningur ná jafnt til allra þeirra sem reka grunnþjónustu hvort sem um opinbera eða sjálfstæða aðila er að ræða. Á slíkt vilja vinstri menn helst ekki minnast. Miðlægur stuðningur hins opinbera við eigin einingar ásamt fjármagni því sem veitt er í ýmsar stofnframkvæmdir er nefnilega langt umfram það sem sjálfstæðir aðilar njóta. Arðsemiskrafa hvetur rekstraraðila og starfsfólk til að finna leiðir til að sinna viðskiptavinum sem allra best með minni tilkostnaði. Aðalatriðið er að einkafyrirtæki, sem tekur að sér grunnþjónustu, verður að standa við þjónustusamninginn. Sjálfstæður rekstur hefur reynst vel hvað grunnþjónustu varðar og sýnt hefur verið fram á það að skólar reknir með ákveðinni arðsemiskröfu geta skilað betri árangri gagnvart þeim sem eiga í erfiðleikum með nám heldur en skólar sem ekki hafa arðsemiskröfu. Þetta kom m.a. fram í rannsókn, sem Harvard University gerði árið 2009.

Þá hefur ávísanakerfið, sú hugmynd að fé fylgi þörf, notið víðtæks stuðnings þar sem það hefur verið innleitt. Í Svíþjóð voru vinstri menn mjög á móti slíkri innleiðingu fyrir 20 árum en í dag nýtur þessi aðferð yfirgnæfandi fylgis fólks burtséð frá því hvort það stendur til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Þannig hafa margir vinstri menn annars staðar á Norðurlöndum áttað sig á kostum einkarekstrar á meðan vinstri menn á Íslandi halda áfram að berja höfðinu við steininn.

Arðsemiskrafa er ekki af hinu illa. Hún stuðlar að jákvæðum árangri. Ef félag skilar arði þá er líklegra að hægt sé að hækka laun starfsmanna og líklegra að félagið greiði meira til samfélagsins. Einnig er líklegra að félagið geti sótt fé til fjárfesta sem aftur mun auka getu þess til að sinna viðskiptavinum sínum enn betur. Látum ekki kreddur vinstri manna stöðva okkur í að ná enn betri árangri öllum til góðs.

Mistök meirihlutans

Ein allra stærstu mistök meirihlutans í Reykjavík komu fram í upphafi kjörtímabilsins þegar hann ákvað að hækka fjárhagsaðstoð til atvinnulausra þrátt fyrir að augljóst væri að slíkt myndi draga úr fjárhagslegum hvata fólks til að fara út á vinnumarkað. Með slíkri aðgerð var í raun óumflýjanlegt að þeir sem eru á lægstu launum sjái lítinn tilgang í því að vinna þegar hægt er að sleppa því og hafa sömu ráðstöfunartekjur.

Meginstefið í velferðarríki hlýtur að vera að hvetja fólk til þess að hjálpa sér sjálft og greiða svo skatta til samfélagsins til að hjálpa þeim sem geta það ekki. Í upphafi kjörtímabilsins hækkaði meirihlutinn í Reykjavík bætur þannig að munurinn á ráðstöfnarfé þess, sem nýtur bóta og hins sem vinnur fyrir lægstu launum, er nánast enginn. Þegar tekið er tillit til þess að það kostar að stunda vinnu til dæmis ferðalög á milli heimilis og vinnu hefur sá sem er á lægstu laununum minna milli handanna en sá sem er á bótum.

Þegar kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar er skoðaður kemur í ljós að hver fjölskylda í Reykjavík greiðir nú 250% meira vegna þessa vanda en árið 2008 á föstu verðlagi. Berum þessar tölur saman við tölur úr öðrum sveitarfélögum: Af tölum sem gefnar eru upp í fjárhagsáætlunum Akureyrarbæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar greiðir hver fjölskylda a.m.k. 440% meira í Reykjavík en á Akureyri og um 250% meira í Reykjavík en í Hafnarfirði.

Réttindi og skyldur eiga við venjulegar aðstæður að fylgjast að. Fjárhagsaðstoðin er í sjálfu sér réttindi en hins vegar eru skyldurnar sem henni fylgja nánast engar. Við Sjálfstæðismenn höfum ítrekað bent á nauðsyn þess að skilgreina hvaða skyldum þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar eiga að gegna. Tilgangurinn með því er að kanna hvernig hægt sé að nýta þann mannauð, sem býr í atvinnulausu fólki á fjárhagsaðstoð, mun betur en nú er gert. Í raun eru það mannréttindi að fá að taka þátt í samfélaginu og furðulegt að meirihlutinn í Reykjavík, sem gjarnan gefur sig út fyrir að vera mjög mannréttindasinnaður, taki svona ákvarðanir.

Fé fylgi þörf – einnig til aldraðra og fatlaðra

Meirihlutinn í Reykjavík er áhugalaus um að taka rekstur og útfærslu þjónustunnar í Reykjavík til skoðunar. Engu að síður eru mörg teikn um að slíkt sé algjörlega nauðsynlegt til þess að hægt verði veita lögbundna þjónustu í næstu framtíð. Ljóst er að ánægja með þjónustuna stenst hvergi samanburð við önnur sveitarfélög og gagnrýni hagsmunaaðila er áberandi.

Óheillaþróun
Mikil skortur á þjónustu einkennir málefni fatlaðra, aldraðra og annarra sem þurfa aðstoð. Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir þjónustu sem er þess eðlis að notandinn getur ákveðið hvar, hvernig og hvenær hún skuli veitt í stað þess að hann sætti sig við það skipulag sem hannað er á skrifstofum borgarbatteríisins. Fatlaðir með mikla þjónustuþörf hafa verið á biðlista eftir húsnæði vegna þess að búseta í tilteknu húsnæði hefur virst eina leiðin til þess að þeim bjóðist nauðsynleg þjónusta. Þessi óheillaþróun hefur þrýst á um að útbúið sé sérstakt húsnæði þar sem þjónusta við einstaklinga fylgir eftir tilskildum reglum. Þetta kerfi krefst mikillar uppbyggingar, er svifaseint og mjög kostnaðarsamt og langir biðlistar myndast. Það sama á við um þjónustu á heimilum. Reykjavíkurborg hefur ekki verið í stakk búin til að mæta þeirri þörf af nægilega mikilli skilvirkni, biðlistar eru langir og notendur sem vilja búa í eigin húsnæði en engu að síður með þörf fyrir þjónustu geta ekki treyst því að borgin stígi inn þrátt fyrir mikla þörf. Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða mánuðum saman eftir stuðningsþjónustu heim.

Burt með biðlistana
Ávísanakerfi eins og notað er í leikskólum borgarinnar þar sem fé fylgir barni hefur reynst vel. Fé fylgir þannig barni til þess skóla sem foreldrar velja. Slíkt kerfi þar sem fé fylgir þeim sem þurfa á þjónustu að halda er gott fyrirkomulag. Þannig geta notendur ákveðið sjálfir hvert skuli leita og velja þá þjónustuaðila sem þeir telja að sinni best þörfum þeirra. Þannig má einnig koma í veg fyrir að fólk sitji fast á biðlistum eftir þjónustu. Reyndar hefur þetta verið notað í Reykjavík í ákveðnum tilvikum en umsókn um slíkt er ekki aðgengileg né gilda um hana sérstakar reglur þetta er því frekar undantekning en hitt. Um leið og ávísanakerfi er innleitt þarf ekki lengur að bíða eftir því að umsetnar stofnanir borgarinnar geti séð um viðkomandi heldur má leita til annarra þjónustuaðila sem hafa áhuga á því að sinna fólki á þeirra eigin forsendum. Þeir aðilar sem sinna slíkri þjónustu geta boðið fólki upp á fjölbreyttari þjónustu og veitt notendum meira val.

Aukum skilvirkni þjónustunnar
Sumir trúa því að einkarekstur sé af hinu illa því að aðilar vilji græða í viðskiptum. Þeir trúa því að aðeins hið opinbera geti veitt góða þjónustu. Slíkar hugmyndir eiga ekki við rök að styðjast og nauðsynlegt er að láta þær ekki koma í veg fyrir eðlilega framþróun. Stór hluti heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi er rekinn af einkaaðilum. Víða hefur gengið vel í þeim efnum. Þrátt fyrir linnulausan hræðsluáróður gegn því að einkaaðilar taki að sér slíkan rekstur er athyglisvert að síðustu ríkisstjórn þótti engin ástæða til að draga úr því fyrirkomulagi. Í Svíþjóð hefur ávísanakerfi reynst vel. Nú þrýsta hagsmunasamtök á um breytingar. Breytingar sem hafa í för með sér að lögð sér áhersla á sjálfsákvörðunarrétt fólks, ekki sé lögð áhersla á hópalausnir, dregið sé úr stofnanahugsun og miðstýringu. Lausnirnar eru til og hafa verið notaðar með góðum árangri.

Meirihlutinn í Reykjavík sýnir hins vegar enga tilburði til að gera nauðsynlegar breytingar og virðist hræddur, hræddur við að breyta, hræddur við að útfæra þjónustu á annan hátt til að auka skilvirkni. Mjög nauðsynlegt er að fá þeirri afstöðu breytt. Hlusta þarf á kröfur notenda, gera breytingar svo hægt sé að koma til móts við þær og tryggja betri þjónustu í Reykjavík hratt og örugglega.

Að skipta sköpum

Í heiðni var talið að skapanornir réðu því hvernig mönnum vegnaði í lífinu. Orðatiltækið að skipta sköpum þýðir að örlögum nornanna má breyta. Fjölmargar vísbendingar liggja nú fyrir og benda okkur á að gera eitthvað sem skiptir sköpum. Ef okkur tekst ekki vel upp þá siglum við inn í tímabil stöðnunar og hrakandi lífsgæða. Örlagavaldarnir sem við ættum því nú að biðla til eru menntun, nýsköpun og vísindi.

Hámarksnýting
Fjárveitingar til rannsókna og nýsköpunar verða að nýtast sem best. Samhæfa þarf umhverfi ríkisstofnana, þar á meðal háskólanna og ryðja þeim hindrunum úr vegi sem nú koma í veg fyrir sveigjanleika í stjórnun og verkefnum þeirra sem stunda rannsóknir og þróun. Mikilvægt er að ekkert í rekstrarumhverfinu hamli samstarfi.

Hraðari verðmætasköpun
Þrátt fyrir góðan afrakstur vísindastarfs og að meira fé sé varið til málaflokksins en í mörgum samanburðarlöndum er verðmætasköpun ekki eins hröð og ætla mætti hér á landi. Því er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum mun markvissar á markaðslegum forsendum til að stuðla að örari þróun.

Þá ber að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn vill að þeir sem stunda rannsóknir, háskólar, fyrirtæki og einstaklingar, fái að njóta sjálfsaflafjár á sambærilegan hátt og gerist annars staðar. Slíkt myndi gera íslensku rannsóknarumhverfi kleift að standa jafnfætis erlendri samkeppni og samstarfi.

Rétt stefna að góðri uppskeru
Fyrir rúmum áratug var mörkuð stefna í þessum málum einmitt af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Afraksturinn varð samningur milli ríkis og háskólafólks. Þar var rétta stefnan tekin. Það mikilvæga er nú að vísbendingar eru um að áhugi fjárfesta sé vakinn og fjármagn vilji inn í landið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað sér skýra stefnu hvað örlagavaldana: menntun, nýsköpun og vísindi, snertir og vill vinna áfram að góðri uppskeru. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn skiptir því sköpum.

Húmor í baráttuna!

Ungir sjálfstæðismenn hafa gefið út nokkur myndbönd til að útskýra fyrir öðru ungu fólki af hverju þeim finnst að aðrir eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Endilega kíkið á þetta þegar þið hafið tíma.
 

 

Vaxtaverkir í skólastofunni

Menntun er lykilhugtak nútímans. Menntun drífur áfram nýsköpun og leiðir af sér vöxt. Íslensk þjóð hefur löngum verið stolt af því að vera kölluð bókaþjóð og Íslendingar hreyknir yfir því að eiga menntað fólk. Við rekum mjög marga skóla miðað við höfðatölu og nám er aðgengilegt. En erum við tilbúin í næsta vaxtarskeið?

Það skemmtilega
Ísland er fremst í flokki þegar kemur að jöfnum tækifærum til náms. Öll börn fara í grunnskóla og hafa tækifæri til að verða læs, skrifandi og skapandi. Minni tengsl eru hér á landi á milli þess hvort einstaklingur fer í nám og þess að eiga vel menntaða foreldra. Okkur hefur tekist að jafna möguleika fólks til að stunda nám.

Hið opinbera greiðir mun meira til grunnskóla en gerist annars staðar sem sýnir væntanlega að í samfélaginu sé áhersla lögð á að börn hér á landi fái að njóta góðs skólakerfis og hér leggi fólk áherslu á að mennta börnin.

Háskólamenntun skilar miklum verðmætum. OECD telur að á síðasta áratug hafi um helmingur vaxtar í vergri landsframleiðslu í aðildarríkjum stafað af því að háskólamenntað fólk fékk hærri tekjur. Nokkuð ljóst er að menntun skilar verðmætum og hagsæld.

Það leiðinlega
En svo er þetta leiðinlega. Því miður er það svo að námsárangur barna hér á landi endurspeglar ekki það fé sem lagt er til skólakerfisins. Námsárangurinn er svipaður og hjá þjóðum þar sem mun minna fé er lagt til skólakerfisins. Það er því eðlilegt að við reynum að átta okkur á því í hverju við erum að fjárfesta.
Sérkennsla er áhyggjuefni en 27% barna hér á landi þurfa sérkennslu á meðan eðlilegt hlutfall að mati sérfræðinga er 5%. Við hrukkum upp við þær fréttir fyrir um ári að fjórðungur 15 ára drengja getur ekki lesið sér til gagns og að stúlkur sýna einkenni kvíða og vanlíðunar meira en drengir í grunnskólunum. Kennsluefni og aðferðir virðast ekki svara þörfum barnanna nægilega vel.

Fjöldi þeirra sem lýkur framhaldsskóla á fjórum árum hér á landi er minni en það sem gengur og gerist innan OECD-ríkjanna. Framhaldsskólinn er undir gríðarlegu álagi og fjársveltur. Nemendur í tækni- og raungreinum eru ekki nægilega margir og hægt gengur að auka hlutdeild verk- og iðnnáms. Nemendur á háskólastigi eru einnig of lengi í námi. Atvinnurekendur kvarta yfir því að skortur sé á fólki með þá menntun sem þörf er á.

Það nauðsynlega
Atvinnulífið á Íslandi þarf að fara í gegnum mikla vaxtarverki á næstunni. Ef ekkert verður að gert fækkar hér fólki og samfélaginu hrakar. Breytingar á skólakerfinu eru óumflýjanlegar. Skólar verða að hafa fullt frelsi til að reyna að takast á við þessar breytingar. Hefðbundnar leiðir mega ekki standa í vegi fyrir því að nýjar fái að líta dagsins ljós. Gæta verður þess að kjarni náms týnist ekki í óþörfu flækjustigi. Finna verður fé til að bæta upplýsingatækni innan skólanna. Tækifæri geta legið í því að fást við kennslu á óhefðbundnari hátt en hingað til hefur verið gert og þá sérstaklega á efri námsstigum. Nýta má fjarkennsluaðferðir betur og auka hlut rafrænna verkefna.

Það allra mikilvægasta er að finna leiðir til að byggja upp áhuga og drifkraft nemenda þannig að þeirra eðlislægi áhugi nái að fylgja þeim frá leikskóla og áfram í gegnum öll námsstig. Aðeins þannig fær vinnumarkaðurinn þá orku sem hann þarf til að takast á við spennandi og krefjandi framtíð.

Rökrétt og réttlátt

Ég er ein af þeim sem tel að það verði samþykkt að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir að ég haldi að niðurstaðan verði sú finnst mér ástæða til að fara í atkvæðagreiðsluna.  Verði það samþykkt skapast góður grunnur fyrir viðræðurnar annað en nú er til staðar.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að hann vilji að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram fyrr en seinna. Til dæmis megi miða við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Ég er líka ein af þeim sem sjá að það er réttlætanlegt að stöðva viðræður áður en fullt umboð liggur fyrir frá þjóðinni. Samfylkingin lofaði í aðdraganda síðustu kosninga að við fengjum flýtimeðferð að þetta tæki bara nokkra mánuði og allt lægi fyrir, fyrr en seinna, hviss bamm búmm! Nú er ljóst að þetta getur tekið langan tíma, enn eru margir kaflar óopnaðir og því þarf að skoða hvaða staða er upp komin. Það er því óeðlilegt að við könnum ekki afstöðu þjóðarinnar áður.

Um daginn skrifaði Anna Guðrún Björnsdóttir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga grein þar sem hún tiltekur kostnaðinn sem bandalagið hefur lagt í að fá til sín sveitarstjórnarfólk, koma því til Brussel til að kynna fyrir þeim starfsemi og annað slíkt. Allt í boði bandalagsins ferðir og dagpeningar. Til viðbótar gefst sveitarfélögum kostur á að sækja um styrki til ýmissa verkefna. Þetta eru háar fjárhæðir og ljóst að um leið verða að sjálfsögðu hagsmunaárekstrar. Þeim sem eru algjörlega sannfærðir um að við munum og eigum aldrei að fara í bandalagið finnst á sér brotið, þarna sé um áróðursfé að ræða og telja stöðuna sem komin er upp mjög ósanngjarna.

Ég er á því að farsælast sé að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna um hvort klára eigi aðildarviðræðurnar sem fyrst annars verði aldrei næg sátt um málið.

Vondu og góðu krónurnar!

Fólk verður að átta sig á þessu. Það stenst
ekki skoðun að munurinn á tillögunum milli Framsóknar og
Sjálfstæðisflokks gangi út á það að Framsókn vilji láta vogunarsjóði borga en Sjálfstæðismenn vilji láta fólk sjálft borga.
Það eru ekki til neinar vondar krónur og góðar krónur, þetta kemur alltaf úr sama sjóði eða einfaldlega ríkissjóði.


Bjarni Benediktsson gerir góða grein fyrir þessu í útvarpi í gær sjá hér hvet ykkur til að hlusta á viðtalið sem er stutt og laggott.


Sjálfstæðisflokkurinn vill leiðrétta skuldastöðu í gegnum afslátt af
skatti og það vill hann hefja strax að loknum kosningum ekki bíða eftir
því að koma hugsanlegum eignum úr þrotabúum í verð og sjá hver staðan
verður þá. Þetta getur tekið mörg ár. Augljóst er að koma þarf til móts við heimilin og það án þess að skilyrða þær endurgreiðslur við önnur viðskipti. 

Báðir flokkar vilja taka hart á samningum við kröfuhafa og
vonandi verður sú eignamyndun sem þar fæðist til að koma til móts við heimilin og ekki síður til
að rétta ríkissjóð af.